Skjálfti

Björt en bláleit birta gægðist gegnum gluggatjöldin.

Ég lá á bakinu og lokaði augunum. Andartaki síðar sneri ég höfðinu og leit til þín. Mér fannst þú fullkominn þar sem þú lást - mér leið hálfpartinn eins og ég þyrfti að borða þig. Ekki á einhvern mannætuhátt heldur bara langaði mig að snerta þig allan með vörunum. Hvernig gæti ég gert það öðruvísi en að gleypa þig í heilu lagi?

Auðvitað gæti það ekki gengið, svo ég lét mér nægja að demba yfir þig kossum. Líkt og regn sem dansar á bárujárnsþaki.

Mig langaði síðan svo mikið að nálgast þig að ég vildi eiginlega sameinast þér. Ég get ekki útskýrt þetta. Mig langaði ekki að verða þú - mig langaði bara nær þér, eins nálægt og hægt var, og þá gætum við ekki verið tvær manneskjur.

Sameinuð í einni sál, tveir líkamar. Eða var það, tvær sálir - einn líkami?