Hafið gefur, hafið tekur



Skrifað stuttu eftir innrás Rússa í Úkraínu.


Hópur af ungu fólki situr á gólfi við kertaljós, tala um rafmagnsleysið. Þau eru í þreytulegum merkjavörufatnaði, útivistarskóm og ullarpeysum í bland. Einhver þeirra eru með talstöðvar, sum snjáða snjallsíma. Í íbúðinni er Costco poki af hrísgrjónum, dósamatur og tómar Nocco dósir. Á þessum tíma sólarhringsins er rafmagnið allt nýtt í hernámsliðið og þeirra framleiðslu.

Það er best að sitja á gólfinu og tala í lágum hljóðum svo ekki sjáist inn um gluggana að hér sé hópur af fólki saman kominn. Það er nefnilega bannað.

Veturinn hefur verið erfiður. Það er komið næstum því ár síðan innrásin varð og landið féll auðveldlega. Hernámið kom upp úr sjónum. Hafið gefur og hafið tekur öðlaðist aðra merkingu. Þessu fylgdu árásir á innviði í kjölfarið. Bara til að sýna mátt sinn og meginn. Mikill vöruskortur fylgdi síðan og matur varð að skornum skammti. Reynt var að skammta það sem til var þegar árásin var gerð en svartamarksaðsbrask varð svo mikið og landsbyggðin fór að reiða sig á hefðbundinn mat. Kartöflur, gulrætur og annað sem auðvelt var að rækta varð megin uppistaða fæðunnar. Ljóst var á þeim sem sátu í hring á gólfinu að dimmur veturinn hafði verið enn erfiðari en nokkur hefði getað ímyndað sér.

Þarna sátu þau og hvísluðu, hnipruðu sig saman og reyndu að ná sambandi við umheiminn til að frétta eitthvað. Flest vildu þau komast burt en sjóleiðin var eini möguleikinn og ekki var hún greiðfær. Auk þess var ansi langt að fara til þess að komast til friðsælli öruggari landa. Vígvöllurinn var allt í kringum þau, á lofti, láði og legi.

Alþjóðasamfélaginu virtist líka standa næstum á sama um þessa smáþjóð sem hýrðist á hjara veraldar. Þau voru bara dropi í hafið á annars stórum heimi sem átti ansi bágt. Aldrei nokkurn tímann fyrr voru fleiri á flótta í heiminum og nú, nema núna voru þau flest frá þeim ríkjum sem áður höfðu lokað eigin dyrum á þurfandi fólk.

Eins og alls staðar þá bar þó þessi tiltekni hópur ekki ábyrgð á þeim ósköpum. Þau voru bara vinir, nágrannar, kunningjar sem lögðu á einhver ráð. Hvort sem nokkuð af því tækist eða ekki, þá veitti það þeim kannski von í brjóst að stinga saman nefjum og reyna að plana betri heim.