Ráðgjöf og fræðsla um öráreiti, fordóma, fjölbreytileika og inngildingu
Ég hef mikla reynslu af því að halda fræðsluerindi og vinnustofur um fordóma á Íslandi, inngildingu og fjölbreytileika. Hægt er að senda fyrirspurn þess efnis hér til hliðar.
Þekking mín á málefninu er bæði fræðileg og persónuleg
Vorið 2020 útskrifaðist ég með meistarapróf í hnattrænum fræðum frá Háskóla Íslands. Þar skoðaði m.a. ég samspil valds og framandleika, heimsvaldastefnuna og oríentalisma. Í meistararannsókn minni, sem unnin var undir leiðsögn Kristínar Loftsdóttur prófessors í mannfræði, rannsakaði ég upplifun íslenskra kvenna með erlendar rætur af fordómum á Íslandi. Nánar um það hér.
Árið 2021 hóf ég að flytja fræðslu um rasisma og menningarfordóma í íslensku samfélagi undir titlinum „Hvaðan ertu?“. Fræðsluverkefnið var stofnað í samstarfi við Chanel Björk Sturludóttur stofnanda Mannflórunnar og Hennar Rödd. Við kynntumst þegar ég var viðmælandi hennar fyrir útvarpsþættina Íslenska mannflóran. Úr varð að við þróuðum fræðsluefni, héldum fjölmarga fyrirlestra og vinnustofur fyrir börn, ungmenni, starfsfólk í ungmennastarfi, kennara og á vinnustöðum. Ætla má að á einu ári hafi 1000 manns setið fræðslu frá okkur. Samstarfsverkefninu Hvaðan ertu? lýkur formlega sumarið 2022 en áhugi minn á málefninu hefur sannarlega ekki dvínað. Veturinn 2022 og áfram árið 2023 hef ég haldið áfram að halda fræðsluerindi og vinnustofur um málefnið.
Ég sinnti fræðslustarfinu samhliða störfum mínum sem sérfræðingur hjá Rannís. Þar starfa ég sem verkefnastýra nokkurra verkefna sem tengjast upplýsingagjöf til ungs fólks og eru að hluta tengd Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. Ég er jafnframt inngildingarfulltrúi (e. inclusion and diversity officer) landskrifstofunnar og hef leitt teymi um mótun inngildingarstefnu. Ég hef fjallað um þessa stefnumótunarvinnu í fyrirlestri sem ég hélt á vegum Stjórnvísi en ég sit þar í stjórn faghóps um fjölbreytileika og inngildingu.
Ég hef mikinn áhuga á skörun (e. intersectionality), þ.e. hvernig margir ólíkir þættir í fari fólks geta skarast og hvernig samfélagið skapar þeim annað hvort forréttindi eða útilokar það vegna þess. Ég hef til dæmis skrifaði um skörun fyrir vefútgáfuna Via.
Þekking mín byggir að mörgu leyti á því að ég er Íslendingur með blandaðan bakgrunn. Þ.e. annað foreldri mitt er fætt á Íslandi en hitt foreldri mitt fluttist til Íslands árið 1965. Ég þekki það vel á eigin skinni hversu mikilvæg sú tilfinning er að tilheyra sínu samfélagi - á sama tíma og ég þekki fordóma bæði af eigin raun og í gegnum upplifun nákominna. Lengi hef ég einsett mér að vekja athygli á þessum síðari reynsluheim og hef ég í gegnum tíðina skrifað pistla og setið fyrir svörum í sjónvarpi og útvarpi og rætt þennan málaflokk. Árið 2015 var ég tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í flokknum atlaga gegn fordómum. Stuttu áður hafði ég vakið athygli á fordómum á Íslandi í kjölfar ummæla þingmanna um bakgrunnseftirlit með múslimum á Íslandi, en ég ræddi fordóma í viðtali við Ísland í dag í janúar það ár. Árið 2023 var ég tilnefnd til verðlauna Diversify Nordics í flokknum „Trailblazer“ en „Trailblazer“ er einhver sem hefur barist fyrir því að stuðla að auknum fjölbreytileika og inngildingu í sínu samfélagi. Mér til mikillar gleði sigraði ég keppnina á Íslandi. Sigurvegarar úr hverju landi voru svo tilnefndir til sama titils á Norðurlöndunum öllum og sigruðu tvær frábærar konur þá keppni, þær Dr. Poornima Luthra og Winta Negassi.