Þegar þið opnið síðuna taka á móti ykkur þrjú orð á arabísku. Í daglegu tali þýðir þetta velkomin, en bókstaflega “fjölskylda og auðvelt”, [aHlan w saHlan]. Þ.e.a.s. þú ert komin meðal fólks sem er líkt og fjölskylda þín og til staðar sem er aðgengilegur. Þannig óska ég að fólki geti liðið í kringum mig.
Ég fékk einu sinni armband að gjöf frá góðum vinum, sem á stendur hakuna matata. Beinþýðingin úr Swahili er “there’s not here, worries” - alla jafna stytt í no worries - engar áhyggjur. Þetta finnst mér vera góð mantra og eitthvað sem ég gæti betur tileinkað mér í lífinu. Enda geri ég mitt allra besta við að fylgja því, þótt það gangi svona upp og ofan.
Annars er ég þrítyngd Reykjavíkurmær með ættir að rekja vestur á firði og til Egyptalands. Ég bý alla jafna á Laugarnesveginum en ég tolli sjaldan heima hjá mér. Rótleysið er mér á einhvern hátt eðlislægt.
Árið 2019 bjó ég einsömul í París, að kynnast borginni og sjálfri mér (og vinna auðvitað, til þess var ferðin farin). Nú er ég komin aftur heim til Íslands og tek mér önnur verkefni fyrir hendur, vinn í Borgartúninu þótt ég rati oft út fyrir landsteinana í vinnutilgangi. Eins og áður þá er markmiðið að lifa í sátt og samlyndi við sjálfa mig og aðra. Ég hef lengi vel haldið úti ýmsum bloggum, sem skrifast á dálæti mitt af ritlistinni (þó ég hafi aldrei lagt hana fyrir mig). Þetta er því fyrst og fremst staður fyrir mína listrænu útrás.
Lógóið á síðunni er egypskt lótusblóm. Hjá Forn-Egyptum táknaði lótusblómið fegurðina og endurfæðingu. Ég trúi því að við séum öll sífellt að endurfæðast í okkur sjálfum, þegar við þroskumst og vöxum andlega. Sem er líka virkilega fallegt.
اَلسَّلَامُ عَلَيْكُم