Ímynduð bíómynd sem gerist í smábæ á grískri eyju
„Hefurðu farið í ferðalag í huganum?“
Ég ferðast oft með ímyndunaraflinu einu og sér, þetta hef ég alltaf gert: sérstaklega þegar ég var yngri og ferðalög útfyrir landsteinana fjarlægur draumur. Þá sat ég löngum stundum yfir kortabók sem við þurftum að nota í grunnskóla – bókin varð fljótt uppáhalds bókin mín – og fletti í gegnum fjarlæg lönd. Ég gat látið mig dreyma um heilu ferðalögin um einhver fjallaþorp á Ítalíu, um sögufrægar slóðir eða lestarferðir um Evrópu þvera og endilanga. Ímyndunaraflið fór með mig í allskonar ævintýri – kannski var það einhver besta gjöf sem ég hef fengið og ég upplifði að foreldrar mínir væru duglegir að rækta (á ólíkan hátt þó, hvort um sig).
Þessa stundina læt ég hugann reika til Miðjarðarhafsins, nánar tiltekið til Krítar. Þangað hef ég aldrei komið en ég hef undanfarna daga legið yfir myndum af bæjum og borgum, höfnum og litlum víkum, stórum og smáum byggingum og þröngum götum. Ég hugsa um sundferðir í sjónum og góðan grískan mat. Það liggur við að ég finni sólina kyssa mig á kinnarnar og bragðið af ólífunum og fetaostinum þegar ég loka augun. Máttur ímyndunaraflsins er mikill.
Stundum fer ímyndunaraflið með mig svo langa leið að ég sé heilu atriðin fyrir mér eins og bíómynd. Í þessari tilteknu mynd vakna ég, aðalpersóna þessarar stuttmyndar – ég veit svo sem ekki hver myndi leika mig, einhver flott og fræg leikkona örugglega – við að sólin skín inn um hálfgegnsæjar hvítar gardínur. Tilgangslausar gardínur, eitthvað stílbragð í herberginu bara, mjög huggulegar í öllu falli. Gera gluggann rómantískari og það að vakna við sólina verður draumkenndara en ella. Fyndið hvað ég get staldrað við slík smáatriði í ímynduðum aðstæðum. Gluggakarmurinn væri líklegast blár að utan, fyrir innan væri stór gluggakista með blómavasa og á litlu náttborði væri síminn minn í hleðslu.
En hvað um það, aðalpersónan hoppar fram úr og – ævinlega morgunhress – hendir einhverjum blómamunstruðum kjól yfir sig. Íbúðin er tóm og kliðurinn frá götunni berst inn um gluggana í stofunni. Ég elska að vera á stöðum þar sem allt iðar af lífi og sagan drýpur af hverju strái (eða hverju húsi, frekar). Hver ætli hafi búið hér fyrir 80 árum, var þetta hús hér þá? Þessi gata er ævaforn, hvernig var líf fólks fyrir 200 árum? Hver labbaði hér um göturnar, hvaða fjölskyldur lifðu alla sína ævi hér án þess að fara neitt annað? Hvaða elskhugar laumuðust út á kvöldin? Fólk hefur náttúrulega ekkert mikið breyst þótt tímarnir hafi gert það.
Sólin skín og himinninn er blár.
Það er enginn matur til í þessari litlu íbúð svo það þarf væntanlega að hlaupa út til að sækja björg í bú. Ferskir ávextir, (að sjálfsögðu) fetaostur, eitthvað brauð, grænmeti, appelsínusafi kannski. Allt bara litríkt og ferskt. Ég get kannski lagað kaffi, því þótt ég drekki það nú ekki oft þá eru sumir dagar þannig að það er mér farið að vera tamt að njóta góðs kaffibolla til að byrja þá. Eða ég gæti keypt kaffi og tekið með mér af einhverju kaffihúsi. Ég er ólíklegur Íslendingur að mörgu leyti en kannski kristallast það helst í lítilli kaffidrykkju. Ég er að vinna í þessu.
Ef aðalpersónan í þessari litlu stuttmynd sem spilaðist í hausnum á mér ætti elskhuga þá væri hann örugglega úti að sækja þennan blessaða mat (aðallega mikið af fetaosti). Með ímyndunaraflinu sendi ég þess vegna frægu leikkonuna í hlutverki mínu út að leita að honum. Hver veit hvar hann er að finna, í þessu þorpi, á þessari eyju? Ég er reyndar alveg viss um að hún myndi finna hann, örugglega áður en hann finnur leiðina í íbúðina (veit hann yfirhöfuð hvar hún er?). Hávaxinn, herðabreiður með prakkaralegt bros (eitthvað svona sem bræðir en er góðlátlegt á sama tíma) í sumarlegri skyrtu. Væntanlega klyfjaður af pokum fullum af mat (sérstaklega hinum margumrædda fetaosti).
Sko, þarna er hann. Fer ekki á milli mála. Aðalpersónan þekkir hann í sjón úr fjarska. Mikið sem það væri gaman að hlaupa aftan að honum og pikka í öxlina á honum. Sjáðu, ég er hér, ég er vöknuð og ég fann þig! Leyfðu mér að hjálpa þér að bera pokana (ertu ekki örugglega með fetaost?). „Hefurðu smakkað fetaost og vatnsmelónu saman?“. Svo hleypur léttfætta fræga leikkonan sem leikur aðalhlutverkið (mig) að næsta ávaxtasala og kaupir vatnsmelónur. Við skulum borða þetta í morgunmat, þetta er uppáhaldið mitt. Ég veit ekki hvaða frægi leikari léki þennan elskhuga en hann væri alveg klárlega bráðmyndarlegur og hann væri pottþétt alveg til í að prófa þennan morgunmat fyrst hann keypti svona mikið af fetaosti. Svo labba þau til baka (eins gott að hún fann hann, hann hefði týnst) og svo setjast þau út á einhverjar svalir með guðdómlegu útsýni, hlæja og borða fetaost.
Ímyndunaraflið mitt fengi örugglega fyrstu verðlaun á kvikmyndahátíð í flokknum Litlar senur sem ég væri til í að lifa, og svo myndi ég taka við verðlaununum fyrir hönd þess og þakka fyrir verðlaunin - ég hefði ekki getað gert þetta án dass af raunveruleika, vonar og væntumþykju og kyngimagnaðs Ímyndunaraflsins sem engum takmörkunum er háð.