Hví, hvað og hvernig?
Fyrsti
dagur sumars…
Ég var beðin um það um daginn að reyna að koma því í orð hvers vegna ég vil skrifa, mála og taka myndir. Ekki nóg með það, heldur einnig hvað það er sem ég hef áhuga á að skrifa um, mála og taka myndir af.
Og að lokum, hvernig kem ég því frá mér.
Það er nú bara hægara sagt en gert. Í fyrstu tilraun gat ég skrifað hví.
Einhver þrá fyrir útrás, eins og hluti af tilfinningunum verði að komast á blað. Endurskapa vellíðan í litum og orðum.
Umorða vanlíðan í eitthvað fallegt.
Gefa lífinu tilgangslausan tilgang, þ.e. annan en að hjakka bara áfram í vinnu.
Þessu komst ég að. Það var nú ekki meira. Markmiðið er að grafa aðeins dýpra í sjálfið og reyna að svara þessum spurningum.
Ég tók upp á því að opna loksins akrýlmálninguna sem ég keypti fyrir löngu síðan í Søstrene Grene hér í París. Ég var búin að gleyma hversu þægilegir akrýllitir eru. Lydía vinkona mín gerir mjög flottar akrýlmyndir - mamma líka alveg meiriháttar - og þær voru helsti innblásturinn í að ég ákvað að kaupa mér litina. Svo hef ég verið eitthvað hrædd við þá svo ég opnaði túburnar ekkert fyrr en fyrst nú. En sá ótti var alls ekki á rökum reistur. Byrjaði á hvítum, bláum og svörtum. Sjáum hvað setur.
Fyrir viku og einum degi kom ég heim til Íslands. Ég átti mjög fallega páskahelgi heima með fjölskyldunni, byrjaði á að fara í fermingu hjá Sóloni Breka litla frænda og svo beint í sumarbústað sem tengdó voru svo yndisleg að leigja. Þar vorum við öll og hundarnir líka í góðu yfirlæti og borðuðum alltof mikið. Það er vissulega rétt að ég hef lengi dreymt um að búa erlendis en eftir fjarveru frá ástvinum þá jafnast fátt á við það að koma heim í rigningu og sudda og kúra sig í kósí með fólki sem maður elskar. Mér þótti skrítið að koma heim í íbúðina mína, sem hefur lítið breyst í fjarveru minni (enda búa þar einungis Svavar minn og hundarnir) og á einu augnabliki leið mér eins og ég hefði aldrei farið neitt og París væri bara fjarrænn draumur.
En París er vissulega ekki draumur, ég er hér nú og hlusta á Ellý Vilhjálms fyrir svefninn. Svo varð mér litið út um gluggann áðan og sá þennan stól sem einhver hafði komið fyrir beint fyrir utan gluggann minn.
Lífið
Eins og einmana skrifborðsstóll í franskri göngugötu,
sem færist ekki úr stað fyrr en einhver ýtir því áfram.
Ég held í háttinn og ætla að láta mig dreyma um eitthvað fallegt. Held það sé eina krafan, undirmeðvitundin verður að ráða rest.
-Miriam