18. hverfi

Margir verða hálf hissa þegar ég segi þeim að ég búi í 18. hverfi. Á fólk kemur svona skrítinn svipur og það er eins og það búist við að mér finnist það hræðilegt. Vorkennir mér hálf partinn. Hverfið hefur ekki endilega jákvæðasta orðsporið og kannski viðeigandi að stelpa úr Breiðholtinu flytji í “Breiðholt” Parísar. Ekki það að mér hafi nokkurn tímann þótt Breiðholtið eitthvað ómögulegt, nema kannski að það vantaði kaffihús þar, heldur kom stundum sami svipur á fólk þegar ég sagðist búa þar.

Göturnar eru kannski stundum örlítið ósnyrtilegri en gengur og gerist, en ég held að mikill ótti manna á þessu hverfi byggist einungis á því að hér búa margir sem ættaðir eru úr hinum fyrrum frönsku nýlendum. Einhverjar óþægilegar staðalímyndir sem valda því að sumum finnist skrítið að koma í hluta Parísar sem er svona “framandi”. Mér persónulega finnst það meiriháttar. Þess fyrir utan þá er þetta voðalega rólegt allt saman.

Hér kemst ég einng í ódýra matarmarkaði, litríkar búðir og skemmtilega litla laumu-garða. Það er líka ódýrara að búa hér en á mörgum öðrum stöðum í París. Plús mér finnst stemmingin svo kammó eitthvað.

Ps. Eitt af mínum uppáhalds frönsku lögum í spilaranum hér í blogginu.

Mér finnst eins og ég hafi skrifað um þetta áður. Tek því kúvendingu og skrifa um eitthvað allt annað. Það ererfitt að ætla að tjá sig um hvað svo sem helst sama kvöld og Notre Dame brann. Ég ætlaði alltaf að fara inn í hana að skoða “við betra tækifæri” - það kennir mér það að hik sé sama og tap og svona hluti eigi ekki að láta eftir ógerða. Ég viðurkenni að ég var alveg smá meyr þegar ég sá fréttirnar. Merkileg bygging sem tengist djúpt í sögu og menningu Parísarborgar.

LRG__DSC1473.jpg

Ég verð þó að viðurkenna að ákveðnar mannfræðilegar pælingar vöknuðu líka, hvers vegna leggjum við svona ótrúlega mikla áherslu á þessa byggingu, frekar en aðrar? Þetta er jú jarðlegur hlutur úr timbri, stáli og steini og engin manneskja tapaði lífinu og yfir því getum við verið þakklát.

Í dag er líka dánardagurinn hans pabba. Mig langar ekki endilega að skrifa eitthvað stórvægilegt um það. Ég reyni að horfa á daginn sem þann dag sem hann losnaði undan bölinni sem krabbameinið var og fékk aftur að hitta mömmu sína, bróður og pabba. En ég sakna hans jú ótrúlega mikið.

Vatnslitamynd sem ég gerði um daginn. Hún á að sýna mannmergðina í metróinu á álagstímum, en ég nennti alls ekki að mála metróið sjálft. Svo ég gerði bara fólk, út í bláinn.

Mér líður oft eins og pabbi sé hérna með mér í París. Og aftur finnst mér eins og ég hafi skrifað um þetta áður. Kannski er ég alltaf að hugsa þetta eða segja frá þessu. En það er eflaust bara vegna þess að það er satt. Stundum sé ég gamla miðausturlenska karla í metróinu sem eru með alveg eins húðlit og hann, krumpaðar hendur og stóra eyrnasnepla. Vissulega, mögulega, undarlegir hlutir til að minnast manneskju, en í mínum huga er allt sem minnir á hann, gjöf sem ég þarf að taka og vinna með. Þannig hugsa ég til hans reglulega.

Annars þá ligg ég uppi í rúmi í litlu íbúðardúllunni minni, enn í kápunni síðan ég kom heim, með sæng án sængurvers og að frjósa á tánum. Held að kuldinn stafi af því að ég er orðin mjög bjartsýn á hitastigið hér og klæði mig kannski frekar eftir eigin hugmyndum um veðrið frekar en eftir raunverulegu veðrinu sjálfu.

Sængurverið vantar af því að ég hafði ætlað beint á þvottahús með óhreina þvottinn minn, eftir vinnu. En, það kveiknaði í Notre Dame eins og áður kom fram og ég gleymdi mér þangað til klukkan var orðin of margt.

Það verður þá að bíða til morguns, það er blessunarlega önnur sæng hérna sem ég get notað á meðan. Af því að ég semsagt kom með mína sæng út til Frakklands og eyddi heilli tösku í að fljúga henni út. En hún hefur líka alveg bjargað mér, dúnsængin frá Svavari.

Held þetta sé komið gott.

Heyriði, nei annars! Ég er búin að eyða ágætis tíma í að setja nokkra nýja hluti á síðuna. T.d. ljósmyndir sem ég hef tekið á filmuvélarnar mínar, smásögur og gömul ljóð. Þetta er allt hægt að finna í valmyndinni hérna til hliðar/neðan eftir því hvort þið séuð að skoða í tölvu eða gemsa.