Og svo komu jólin

Ég verð að biðjast afsökunar. Ég ætlaði mér að vera svo dugleg að skrifa á meðan dvöl minni stóð í París. Svo bara gerðist lífið og kannski af einhverri tilraun til að hanga ekki of mikið í tölvunni þá hef ég ekkert skrifað síðan í september. Kannski tek ég einhvern tímann skurk og skrifa upp dagbókarfærslurnar (já ég hélt gamaldags dagbók fyrstu mánuðina).

En nú er ég komin heim. Ég veit ekki hvar ég á að byrja? Kannski á heimferðinni og fikra mig svo aftur á bak í næstu færslum.

Ég var ótrúlega stressuð fyrir heimferðinni. Ekki yfir því að koma heim í sjálfu sér, þó að fókusinn hafi verið meira á því að ég væri að yfirgefa La belle ville de Paris. Nei, ég var stressuð yfir því að komast heim. Og þá að komast heim með allt mitt hafurtask. Ég var með allt of mikið af dóti. Ég ber alfarið ábyrgð á því sjálf. Of margar bækur, of mikið af fötum, heil sæng og koddi og fullt af ljósmyndum sem höfðu prýtt veggina mína (í því skyni að gera íbúðina heimilislegri). Þetta smell passaði, bókstaflega smell passaði, í þessar 4 x 23 kg töskur sem við höfðum heimild til að taka.

Þetta er kannski ekkert í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að það var algerlega ómögulegt að koma þessu öllu upp á flugvöll (augljóslega) með lestinni sem ég nýtti mér yfirleitt óspart af því að hún var innifalin í lestarkortinu mínu.

Augljósasta svarið við þessu væri að taka leigubíl. Nema að það hefur verið samgönguverkfall í Frakklandi síðan 5. desember. Að fá leigubíl er næsta ómögulegt og hvað þá í að sannfæra þá í að keyra upp á flugvöll.

Sérstaklega í ljósi þess að það var augljóst að við þyrftum að bóka stóran bíl, útaf öllum farangrinum. Það er fyndið þegar ég skrifa þetta allt núna þá hljómar þetta mjög lítilvæglegt, þannig séð, eiginlega bara basic en ég var mjög mikið að stressa mig á þessu. Við ákváðum, útaf verkfallinu, að eyða síðasta deginum í slökun á flugvallarhóteli, sem var eiginlega besta ákvörðun sem ég hefði getað tekið, bæði til að hlífa geðheilsunni frá akstri upp á völl samdægurs en líka til að fara í langa heita sturtu og slaka á í yfirdrifið stóru rúmi. Ég hafði annars séð fyrir mér að hanga föst með farangurshrúgu í París á meðan við reyndum í ofvæni að kalla til leigubíl.

Fengum svo fínan, en vafasaman (mögulega smá freðinn) bílstjóra af hótelinu upp á flugvöll, morguninn eftir og það gekk allt vel. Töskurnar ekki of þungar og þessi stóra frá Svavari (hann kom með risastóran sjópoka (e. duffle bag) til að koma sænginni og stóru innrömmuðu Íslandskorti sem passaði ekki í töskurnar hinar, heim) fór bara í odd size. Ég hafði auðvitað gert mér miklar áhyggjur af því að hún væri of stór fyrir töskuskilmála Icelandair og okkur yrði meinað að fara með hana heim.

En það gerðist jú auðvitað ekki.

IMG_3994.jpeg

Nú er svo komin jólanótt og ég ligg upp í rúmi. Þakklát að horfa yfir farinn veg síðasta árs en eiginlega líka uppgefin eftir síðustu mánuði. Fyndið hvað jólin, tími samveru og fjölskyldu, verða mikið stress, jafnvel þegar enginn utanaðkomandi setur á mann stress. Sé alfarið um það sjálf.

En nú er ég bara minn eigin herra fram að því að skólinn byrjar og ætla að reyna að lenda aðeins betur, finnst ég enn svo hátt uppi eftir þennan draum sem síðasta ár hefur verið — ég ætla að skrifa um það seinna.

jólakveðja