Og svo kom haustið

Ég hef ekki verið eins dugleg að skrifa og ég ætlaði mér. September hefur alveg flogið fram hjá og ég trúi ekki að það verði kominn október eftir nokkra daga. Ég er á hálfgerðum bömmer yfir því að hafa ekki gert allt sem mig langar að gera hér á meginlandinu síðan ég kom en það er mjög lítið sem ég get gert í því, tíminn liður bara áfram.

Í dag er París grá og blaut, skýjað úti og rigning öðru hvoru - svo ég er ekki með þetta klassíska íslenska samviskubit yfir því að vera ekki úti að gera neitt.

Sængin mín er aftur á móti hlý og góð og ég afrekaði það í dag að hreinsa risastóran klakabita sem hafði myndast aftast í ísskápnum mínum. Ísskápurinn er ekki einu sinni það stór svo það hefur allt í einu myndast flennistórt rými aftast sem var ónothæft. Ég hugsa að þessi ís hafi myndast í tíð fyrri leigjenda hérna og enginn haft rænu á því að hreinsa hann út, enda flestir leigjendur herra Amamra (sem leigir mér), starfsnemar frá Þýskalandi sem stoppa alltaf bara hér í 3 mánuði.

Ég réðst á klakann vopnuð heitu vatni í potti, sé ég lét gufa upp inn í skápinn, og hamraði svo á ísnum með hníf sem er frekar sterkbyggður en ekki mjög beittur þegar maður reynir að skera mat með honum - virkaði samt ágætlega sem tól í þessum bardaga. Ég stakk í eitt skiptið ágætlega inn í eina hliðina á ísskápnum (ekki segja neinum…) svo það kom pínu lítil rífa. Ég blessunarlega virðist ekki hafa skorið í gegnum neitt mikilvægt því hann virkar enn.

Eftir smá stund náði ég að fjarlægja allt heila klabbið með höndunum og sit núna uppi með risa ísmola í sturtubotninum sem fær að bráðna þar eitt með sjálfu sér.


Í gær heimsótti ég Maison Louis Carré og skoðaði þar hönnun og arkitektúr Elissu og Alvar Aalto. Tilefnið var 60 ára afmæli hússins og opnun finnskrar listasýningar.