Bros

Það er eitthvað sérstakt við þá tengingu fólks sem getur litið á hvort annað og hlegið, án þess að segja orð. Þegar hugsanirnar tengjast á einhverju öðru sviði, fær það mann til að velta fyrir sér hvort það þurfi í raun eitthvað annað til þess að vekja hrifningu eða hvort góður húmor og hlátur sé nóg. Fallegt bros hjálpar til. 

Sumt fólk kemur inn í líf manns eins og sólskin eftir dimma rigningardaga, án þess að ætla sér það. Líkt og meðal fyrir sálina, fyrir sjúkdóm sem hefur verið ógreindur. Það er í raun ekki fyrr en sólin birtist að það rennur upp fyrir manni í hvaða myrkri lífið hefur verið. Stundum þarf bara eina vingjarnlega athugasemd og brosið sem fylgir, til að framkalla djúpstæða gleði. Hlýju í hjartað. 

Ætli það sé mælikvarði á duldar tilfinningar hversu lengi og djúpt fólk horfir í augu hvers annars á meðan það brosir? Kannski er það mælikvarðinn á rafmagnið sem er til staðar. Eins og augun séu að segja eitthvað meira en hversdagslegt samhengið gefur til kynna. Augun taka á móti rafstraumum sem liggja þvert á herbergi og annað fólk, straumar sem vita hvert þeim er ætlað að fara.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.