París

Steinlögð stræti

Ég geng alltaf hratt upp götuna sem ég bý við. Hún er ekki mjög heillandi eins og stendur, framkvæmdir hafa staðið við eitt niðurnítt húsið í lengri tíma og ber gatan þess merki. Rusl frá framkvæmdunum liggur út á götuna sjálfa og hátt málmgrindverkið sem hafði verið þakið pappa til að hylja verksummerkin á jarðhæð er götótt og slitið, svo það fegrar ekki neitt. Það gleður mig þó alltaf að þetta hús eigi að endurnýja, en ekki rífa, því ég þekki það að heiman hversu ljótar nýbyggingar geta verið innan um falleg gömul hús. Beggja megin við enda götunnar eru veitingastaðir, eða matsölustaðir öllu heldur. Annar selur heitt norður-afrískt brauð eldað út við glugga, sennilega viljandi gert því lyktin er lokkandi. Hinn selur samlokur en er aðallega samkomustaður manna sem horfa á fótboltaleiki, tala hátt og drekka bjór.

Það er líka bar handan við hornið hjá brauðstaðnum, sem minnir óneitanlega á Mónakó (ekki smáríkið, heldur rónabarinn í 101 Reykjavík). Úti á götu er alltaf einhver á ferli. Fólk hittist og spjallar, stoppar á vespunum sínum og hangir þarna tímunum saman. Grannir, ungir menn selja hvorum öðrum sígarettur, Marlboro hvísla þeir syngjandi að öllu sem hreyfist, þó ég hafi reyndar heyrt að þetta séu eftirlíkingar frá Kína. Sumum finnst þær samt betri. Einhverjir þeirra selja eflaust eitthvað annað líka en ég hef ekki orðið vitni að því beint, þótt mig gruni það. Það er nota bene reyndar lögreglustöð ofar í götunni, svo þetta er allt mjög civil, hér hrópar enginn eða er með læti - nema þegar Afríkukeppnin í fótbolta er í gangi.

Stundum standa menn við útidyrnar mínar og halla sér upp að þeim á meðan þeir spjalla. Þeir bukta sig og beygja þegar þeir átta sig á því að ég þurfi að komast inn eða út. Bonjour madame. Ég geng alltaf hratt upp þessa götu, en það er kannski ekki við fólkið að sakast - þó ég finni auðvitað stundum fyrir því að einhver stari á mig. Það er kramin, dauð rotta við málmgrindverkið sem ég steig næstum á eitt skiptið þegar ég var nýflutt. Hún hefur verið þarna mjög lengi, alveg kylliflöt. Og þá meina ég mjög lengi. Ég áttaði mig eiginlega ekki á því að um rottu væri að ræða fyrr en ég sá skottið. Kveikti á perunni og spretti úr spori. Fékk hroll. Svosem ekkert sem þessi rotta getur gert mér í sjálfu sér, kannski er hún bara óþægilegur minnisvarði um la brutalité götunnar. Vegna hennar hraða ég mér alltaf upp götuna þangað til ég er komin burt frá framkvæmdunum.