Aðeins um hversdagsfordóma
Nokkrum sinnum á síðustu vikum hef ég upplifað einhvers konar óbeinan rasisma sem er eiginlega ekki hægt að útskýra nema með dæmisögu. Bæði tilvikin hafa setið í mér í nokkrar vikur, kannski af því að í þeim báðum var ég eitthvað lúin og ekki andlega tilbúin til að malda í móinn og taka eitthvað samtal. Þótt ég hvetji fólk yfirleitt til að segja eitthvað þá veit ég að raunveruleiki þeirra sem verða fyrir fordómum er oft sá að þreytan sem fylgir því að vera alltaf á varðbergi og í einhverjum stellingum er líka raunveruleg.
Snemma í þessum mánuði fór ég í vinnuferð til útlanda og á einhverjum tímapunkti, vegna eðlis starfsins, var verið að ræða fjölda erlendra nema og umsóknir þeirra um háskólanám, í landinu sem ég heimsótti samanborið við Ísland. Í umræðum um fjölda umsókna um námsleyfi og vegabréfsáritanir frá fólki utan Evrópu, barst talið að fjölda þeirra sem koma frá löndum þar sem lífsgæði eru almennt talin lægri en hér (sem er annar kafli útaf fyrir sig, að velta fyrir sér ástæðunum fyrir því). Af máli þeirra sem rætt var við, var að heyra að einhverjir nemendur, eða einhver lönd, væru óæskilegri en önnur - og að hertari vegabréfsáritunarstefnur væru nauðsynlegar til að halda þessu fólki í skefjum. Ég vissi alveg hvaða fólk var verið að ræða.
Núna nýlega átti ég svo samtal við aðra erlenda kollega þar sem við vorum að ræða svipuð mál og ég gaf dæmi um stefnuleysi sem lengi hefur verið hér varðandi áritanir fyrir erlenda háskólanema sem eyða mörgum árum í rannsóknir hér og fá svo kannski ekki dvalarleyfi fyrir sig eða börnin sín að útskrift lokinni og hverfa þar af leiðandi á braut með þekkinguna sem þau hafa aflað sér. Ég veit að það eru einhverjar áherslubreytingar í gangi þar, en þetta var svona dæmi sem ég gaf. Viðmælandinn tók til máls og fór að ræða um eiginmann vinkonu sinnar sem væri bandarískur prófessor í þeirra heimalandi (sem er evrópskt ríki) og hvað henni þætti fáránlegt að komið væri fram við hann eins og „einhvern glæpamann” sem væri búinn að vera í mörg mörg ár að fá almennilegt dvalarleyfi. Því það væri nú ekki, að hennar sögn, eins og hann væri frá einhverju „svona ríki, þið vitið, þriðja heims ríki, bara eins og Pakistan eða eitthvað”.
Ég sat þarna og horfði á þessa konu og hugsaði: Hún þekkir mig ekki neitt, hún meðtekur mig bara sem Íslending sem á greinilega að vera sama sinnis og hún. En ég ber náttúrulega utan á mér eitthvað erlent yfirbragð, hef ég heyrt, og hún veit ekkert hvaðan það kemur. Miðað við menningarlegan bakgrunn pabba míns þá gæti ég allt eins verið ættuð frá Pakistan, eins og margar góðar manneskjur sem ég þekki á Íslandi, því fordómarnir sem við höfðum upplifað í gegnum tíðina eru af sama órientalíska, íslamófóbíska meiði. Þannig að þótt ég sé ekki persónulega ættuð þaðan þá stakk þetta mig.
Ég held að þessari konu hafi ekki persónulega eingöngu verið í nöp við Pakistan, hún nefndi það bara sem eitt af þessum löndum, sem greinilega eru á einhvern hátt með óæskilegt fólk innanborðs. Lönd sem ég veit að Egyptaland er oft sett undir sama hatt í einhverjum samfélagslegum skilningi.
Mig langaði svo að segja eitthvað. Mig langaði svo að nefna það að tilvera mín ætti það undir að maður frá þessum heimshluta, sem var ekki háskólamenntaður, kom og settist að á Íslandi. Af því að þegar öllu er á botninn hvolft þá stingur þetta. Að vilja ekki fá þetta fólk hingað, þótt það sé ekki verið að tala um akkúrat sama land - heldur frekar bara fólkið sem hún meinti í rauninni og hefði getað verið frá fjölmörgum löndum þar sem fólk er ekki beint hvítt og kristið - þýðir líka að tilvera fólks eins og mín sé á einhvern hátt óæskileg. Eða afleiðing einhvers óæskilegs. Eins og hún myndi sofa betur ef færra fólk eins og ég væri til.
Óbeinn og lúmskur rasismi og menningarfordómar. Fordómar eru ekki alltaf bara hatursfullar athugasemdir, hann er líka hversdagslegur, þreytandi og íþyngjandi.