Friðsælt
Það er friðsælt ágústkvöld í Reykjavík. Ég finn að ég sjálf er líka mjög friðsæl í augnablikinu. Ég er ekki einu sinni sorgmædd yfir því að nýbyggingarnar á Kirkjusandinum hindri útsýni mitt út á sjó. Það er logn, blóm á svölunum, kerti á stofuborðinu og hvorki dimmt né bjart. Bara notalegt.
Ég er með hausverk eftir kórónaveiruna en mér finnst þessi veikindi hafa kennt mér ýmislegt. Alheimurinn hlustar greinilega á sitt fólk. Ég þekki mörg dæmi um það. Nú síðast er það kannski smá kaldhæðnislegt en ég fór næstum yfirum í tilfinningasemi yfir því að sumarfríið mitt væri að enda áður en mér fannst ég hafa sofið nóg eða slakað nægilega vel á, eða verið ein útaf fyrir mig að gera ekkert.
Alheimurinn hlustaði og fann leið til þess að veita mér allt þetta. Með kórónaveirusmiti. Nú er ég búin að liggja fyrir í næstum viku, hef hugsað um margt, lesið gömul bréf og gamlar hugsanir sem ég hef sjálf skrifað niður. Ég er búin að sofa ótrúlega mikið og djúpt. Ég er vissulega líka ógeðslega kvefuð, finn hvorki bragð né lykt (okei kannski smá lykt), og með ótrúlega pirrandi mígrenislegan hausverk. Svo margar lexíur á lexíur ofan síðustu daga og vikur.
Ég lærði hvað ég er þakklát fyrir ótrúlega margt, hvað ég er þakklát fyrir heimilið mitt, fyrir frið, fyrir bragðlauka og lyktarskyn, þakklát fyrir ástina og heilsuna. Ég er meira að segja líka þakklát fyrir vinnuna og farin að hlakka til að snúa til baka.
Alheimurinn kunni að kippa mér niður á jörðina, eða upp úr hyldýpinu, hvernig sem á það er litið. En hann gerði það ekki einn síns liðs. Hann skapaði aðstæðurnar til að ég gæti farið að hugsa um hvað skipti mig virkilega máli og svo er líka fólk í kringum mig sem minnir mig sannarlega á það líka.
En nóg um það. Nú er sólin sest og kertið blaktir fallega í rökkrinu. Ég fann rétt í þessu saltbragð þegar ég sleikti á mér varirnar, það er kannski eitthvað að rofa til. Ég hlakka til að fara að sofa, heimsækja draumheima og vakna vonandi örlítið ferskari á morgun.
Það er gott að muna svona daga þegar á reynir, það er stundum þægilegt að vera til - jafnvel þótt allt sé ekki fullkomið.