Sumarsól
Sólin kyssir hafið blátt,
sólin kyssir rjóða vanga,
sólin kyssir hrokkið hár.
Sólin kyssir blóm í haga,
sólin kyssir daga langa,
sólin kyssir öll mín sár.
Þegar sólin elskar mig á heiðbláum sumardegi, finnst mér eins og hún geti ekki verið á neinum öðrum stað í heiminum en hér, af því að augnablikið sem ég á með henni er svo sérstakt. Hún hlýtur að vera að einblína á mig eina. Ég sýni henni þakklæti.
Hafflöturinn tindrar við sjóndeildarhringinn og golan er hlý á vangann. Vegurinn heldur áfram hlykkjóttur á meðan nestið skröltir í aftursætinu. Það er löngu búið að slökkva á útvarpinu því hér næst engin rás. Mér er skapi næst að nema staðar bara einhvers staðar með tjaldið en verð víst að stefna á tjaldsvæði.
Ég veit alveg hvert ég ætla svo að ganga eftir að gamla tjaldið hefur risið. Eitthvert þar sem hafið og fjöllin og sjórinn mætast, í dalverpi þar sem er skjól. Þar ætla ég að setjast niður, bíta í samloku og fá mér kakósopa.
Síðan ætla ég að horfa á himininn og hafa orð á því hvað hann er blár. Grasið kitlar aðeins þegar ég leggst útaf og ég heyri humlu skoða blóðberg.
Svo kyssir sólin mig á kinnarnar og þú kyssir mig á munninn.