Fasismi

Árið 2019 birtist neðangreind setning í stefnuyfirlýsingu á vefsíðu hreyfingar, sem ítrekað reynir að gera vart við sig á Íslandi, eins og hún hefur gert á hinum Norðurlöndunum. Þar kemur fram að hreyfingin vilji

[…] stuðla að brottför meirihluta fólks sem er ekki af Norður-Evrópskum uppruna eins fljótt og mögulegt er. Fólkið ætti að vera sent til heimalanda sinna eða annara staða þeim nálægt […] 

Þetta, og margt annað, var kveikurinn af þessari smásögu.

—-

Tam-ta-tam-ta-tam-ta-tam

 

Takturinn var úr vinnuvél einhvers staðar fyrir utan. Það var farið að vora og stundum á morgnana heyrðust fuglarnir syngja. Loftið var líklegast tært og fallegt, eins og þessum tíma sæmdi. Sumardagurinn fyrsti kannski handan við hornið. En hvernig leið svo sem tímanum á þessum felustað, það var varla að hækkandi sól liti þar inn. Munurinn var helst að rakinn af köldum vetrarnóttum gerði minna vart um sig.

 

Þetta hafði ekki alltaf verið svo slæmt. Fasistarnir, eða hvað sem þeir kölluðust í dag, langt frá því að vera Ítalir með axarvendi (it. fascis), en svo nálægt því að vera margt annað grimmilegt úr mannkynssögunni, höfðu á síðustu árum bætt í sig veðrið, svo þakíbúðin var ekki lengur öruggur staður. Landið var í raun ekki öruggur staður fyrir þá sem voru ekki af norður-evrópskum uppruna. Á íbúðinni voru gluggar og svo voru nágrannar sem gætu gert viðvart um óvanaleg fótatök. Þeir vissu jú að hún hefði búið þarna en áttu að telja hana farna úr landi fyrir löngu. En, svo var ekki og úr því varð þessi felustaður. Fyrir aftan vegg, á bakvið hillu, undir súð.

 

Tam-ta-tam-ta-tam-ta-tam

 

Þetta hljóð minnti á annað. Þetta var sami taktur og í lestinni sem reglulega rann á upphækkuðum teinunum fram hjá íbúðinni við Rue Caplat í 18. hverfi Parísar. Við lestarstöðina Barbès-Rochechouart þar sem enginn virtist sofa á nóttunni. Iður og kliður og reglulegt rúllerí lestarinnar. Það var í París sem áhugi á heimsstyrjöldinni síðari kviknaði á ný. Í sagnfræðitímum í lok grunnskóla og í menntaskóla hafði þessi áhugi verið sem sterkastur. Schindler‘s list og frásagnir eftirlifenda. En París sjálf var líka áminning. Íbúðin var eldri en stríðið. Flestar byggingarnar voru reyndar eldri en stríðið. Flestar stóðu þær af sér hernámið. Þar gekk fólk um götur, var fangelsað, var flutt burt og myrt fyrir það hvert það var, fyrir trú sína, þjóðerni og fyrir því sem það barðist. Gengu um sömu stræti og ég. Renndu höndunum yfir sömu handrið. Hver bjó hér í þessari blokk? Hver opnaði þessa glugga og dyrnar út á svalir og vinkaði kannski nágranna yfir götuna? Ef veggirnir gætu talað.

 

Tam-ta-tam-ta-tam-ta-tam

 

Á 75 ára afmæli endaloka umsáturs Parísarborgar var opnað safn. Það var tileinkað andspyrnuhreyfingunni. Það merkilegasta við safnið eru kannski ekki öll dæmin um hugrekki þeirra fjölmörgu venjulegu borgara sem hættu lífi sínu fyrir frelsi sitt og meðborgara sinna. Kannski ekki heldur áminningin um þá grimmilegu og kerfisbundnu útrýmingu fólks sem fór fram á þessum tíma. Innan landamæra hinnar merku Evrópu. Kannski var það merkilegasta, þegar ég fattaði að hér væri safn tileinkað þessum tíma, tileinkað því hvernig París var frelsuð og götustríð og loftárásir á borgina fordæmdar, var samhengi þess tíma sem 75 ár mörkuðu. Víðsvegar stóðu aðrir einstaklingar á safninu og létu hreyfast af myndunum og upprunalegu mununum sem voru til sýnis. En á meðan við stóðum hér og drógum andann, nokkrum metrum fyrir ofan birgið sem áður hýsti andspyrnuhreyfinguna, dóu einhverjir vegna stríðsátaka, sprengjuregns eða lögðu á flótta á öðrum stað í heiminum. Núna í dag – á þessu andartaki. Já, það var nefnilega svo merkilegt, að flóttamannastraumurinn á þessum tíma var líka gífurlegur. Hann kom til tals á safninu. Þreytulegt fólk í löngum röðum, með börn á bakinu og búið að gefast upp á öllu sem pakkað var niður í upphafi. Hljómar kunnuglega, nema þau voru evrópsk, í svarthvítu og hér fundu allir til með þeim. Hvernig gat þetta gerst, hér af öllum stöðum? Hér var auðvelt að fordæma og finna til með. En hvar liggja mörkin?

 

Tam-ta-tam-ta-tam-ta-tam

 

Í framtíðinni var vinnuvélin farin af stað á ný. Einhver hafði fært fréttir um að lóan væri komin, en hún var gott sem útdauð við Ísland, eins og margar dýrategundir, ruglaðar vegna loftlagsbreytinga. Einhvers staðar hafði verið sofið á verðinum. Það voru sko engir fasistar hér, eða nasistar - nú eða jafnvel rasistar - bara fólk á hægri vængnum sem viðraði stundum kaldranalegar skoðanir í garð hvers sem öðruvísi gæti talist. Þau meintu þetta nú aldrei illa.

 

Það má bara ekkert lengur.

 

Nei, það var nú kannski ekki það. Það var bara algjör synd að fólkinu láðist að tala gegn hatrinu á meðan það voru orð en ekki verknaður. Hatrið beindist jú ekki gegn þeim. Það bjóst aldrei neinn við því að þetta gæti orðið svo slæmt.

Við fljótum bara öll sofandi að feigðarósi í heimi þar sem tískan endurtekur sig í sífellu – það vita það allir – og viti menn, sagan gerir það líka ef ekki er vel að gáð.