Hugleiðingar

Fyrir 9 árum skrifaði ég pistil á Facebook. Kveikjan af þessum pistli voru ummæli þingmannsins Á.F. um að allir múslimar á Íslandi ættu að fara í bakgrunnsskoðun. Á þeim tíma varð mér hugsað til þess á hvaða grundvelli íslenska ríkið ætlaði að bakgrunnsskoða fólk einnar trúarbragða, umfram annarra.

Ætlaði ríkið að skoða bakgrunn þeirra sem hafa tekið upp íslamstrú eða líka þeirra sem skrá sig utan trúfélaga en „bera þess merki“ að vera múslimar? Ég velti þessu fyrir mér. Í hverju fælist bakgrunnsskoðunin? Hvað yrði talið merki um eitthvað neikvætt í bakgrunni fólks? Skátastarf með íslömsku ívafi (því skátastarf víðsvegar um heim er nátengt trúarbrögðum), væri það tilefni til einhvers?

Ég hugsaði til pabba míns sem var þá enn á lífi, og var aldrei skráður í neitt múslimskt trúfélag á Íslandi. Hefði Á.F. sent hann í bakgrunnsskoðun á þeim forsendum að hann fæddist múslimi samkvæmt egypskum lögum? Myndi hann senda mig í bakgrunnsskoðun af því að samkvæmt egypskum lögum erfi ég trúarbrögð föður míns – en hér á Íslandi er ég í sama trúfélagi og móðir mín.

Ég velti þessu fyrir mér þá, og velti þessu fyrir mér núna. Kveikja vangavelta Á.F. í dag eru svívirðilegir glæpir og ofbeldi í nánu sambandi sem kom upp á Suðurnesjum. Í því tilfelli hengja fjölskyldumeðlimir konu sig á menningu sína og trúarbrögð til að afsaka hrottafengið ofbeldi í hennar garð. Heiður hefur þar einhverja fjarstæðukennda þýðingu sem þau nota til að réttlæta viðbrögð sín. Þetta ofbeldi er ein fjölmargra birtingarmynda stöðu kvenna víðs vegar um heiminn. Konur eru skotmörk fyrir það eitt að vera konur.

Ég vil endilega að við ræðum þetta mál, ræðum mikilvægi þess að allar konur sem á Íslandi búa fái upplýsingar um viðeigandi aðstoð og að þær viti að þær geti treyst á ýmsa aðila í leit sinni að öryggi. Ég tel líka mikilvægt að við sinnum vel samfélagslegri fræðslu um kvenréttindi og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis hvort sem það er til innflytjenda eða innlendra. Jafnrétti er ekki enn náð hér í „jafnréttisparadísinni“ og við þurfum að passa að fljóta ekki sofandi að feigðarósi þar.

Og þá kem ég aftur að ástæðu þess að ég skrifa þennan pistil. Það fýkur í mig þegar ég sé fólk sem básúnast yfir skaðræði femínismans á sama tíma og það afsakar kynferðisofbeldi sem framið er af íslenskum frammámönnum, íþróttamönnum eða útbrunnum tónlistarmönnum, en sýpur svo hveljur yfir ofbeldi sem innflytjendur beita konur.

Sérðu flísina í auga náungans en ekki bjálkann í þínu eigin?

Af hverju er þeim ekki jafn niðri fyrir þegar þolendum mansals er vísað út í óvissu og hættu og af hverju er þeim ekki jafn mikið niðri fyrir þegar samlandar þeirra beita konur ofbeldi? Hvaða skilaboð sendir það þeim konum sem hér hafa talið í sig kjark til að segja frá, oft til þess eins að vera smánaðar af kerfinu. Jú, það sendir nefnilega þau skilaboð, sem er kannski mergur málsins í þessu öllu saman, að það er mjög hentugt fyrir útlendingahatarana og íslamófóbana, þegar einstaklingarnir sem þau fyrirlíta mest gerast sek um hrottafengna glæpi. Guð forði þeim svo frá því að taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi þegar gerandinn er félagi þeirra, kunningi eða maður sem þeir líta upp til. Þá mega konurnar bara halda kjafti, hætta að gera svona mikið mál úr hlutunum og slaka bara aðeins á.

Útlendingaandúðin er nefnilega djúpstæðari en virðing þeirra fyrir konum, þegar öllu er á botninn hvolft. Ég vona að Á.F. gerist nú í kjölfar þessa gallharður femínisti og fari harðast fram í stuðningi við fórnarlömb kynferðisofbeldis, fórnarlömb mansals og konur á flótta. Jafnvel að hann fari að styðja rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama, hætti að tala fyrir því að skerða þungunarrof og mæti jafnvel í druslugönguna næst.