Velmeinandi fólk

„Það er svo gott að búa á Íslandi,“ hugsaði ég þegar ég horfði kímin á Stellu í orlofi á spilara ríkissjónvarpsins í sumarbústað um helgina. Þótt bústaðurinn væri barinn sundur og saman af roki og rigningu þá renndi ég hýru auga til sólskinsdaganna í myndinni. Græns grassins, blíðunnar og lyktarinnar af sumrinu. Sumarið með sínar mildu nætur, fullar af logni og kyrrð. Mér varð hugsað til bernskunnar, enda óx ég úr grasi á þeim tíma þegar jogginggallar, víðar skyrtur og litrík föt réðu ríkjum á Íslandi. Allt var skræpótt og skemmtilegt, í minningunni, meira að segja nýmjólkurfernurnar sem Stella hristi svo innilega í upphafi myndarinnar, undir laglínunni „ævintýri enn gerast“. Þó lífið sé örlítið meira mónótón í dag, fólk klæðir sig í grátt og svart og málar húsin í sama stíl, þá finnst mér það samt þvílík endemis lukka að hafa fæðst hér og geta fengið að kalla þetta land heima. 

Það er nefnilega svo mikið af góðu fólki á Íslandi. Fólki sem lifir lífinu kannski á ólíkan hátt en þegar á reynir áttar það sig á að það á meira sameiginlegt en það hélt við fyrstu sýn,  eins og Anton flugmaður og félagarnir í Lionsklúbbnum Kidda. Er þetta eitthvað sér-íslenskt eðli, eða er það kannski bara eitthvað sammannlegt? Að fólk sé bara fólk inn við beinið og að þegar á reynir vill mannfólk frekar taka höndum saman og vera til staðar. Ég trúi því frekar, því dæmin um það eru mýmörg. Samt vill fólk einhvern veginn oft gleyma því að það eru ekki bara við sem erum gott fólk, eða duglegt fólk. Það fólk fyrirfinnst allstaðar. 

En semsagt, hér á Íslandi fyrirfinnst gott og duglegt fólk sem vill öðrum vel. Ég trúi því, eða ég hef allavega trúað því hingað til. Ég er samt ótrúlega hrædd um að ég sé að blekkja sjálfa mig. Sjálfsblekkingin felst í því að hér á landi muni fólk standa vörð um réttindi alls fólks og öryggi. Að mannréttindi skipti Ísland máli, þ.m.t. mannréttindi mín. 

Ég ólst upp við þá trú að hér væri engin stéttaskipting en síðustu ár hef ég áttað mig sífellt oftar á því að hún er sannarlega við lýði hér eins og hvar sem er annars staðar. Ég ólst líka upp við það að hér væru engir fordómar, en það var alltaf eitthvað öfugsnúin trúin á þá mýtu, því samhliða þeirri lygi upplifði ég fordómana á eigin skinni. Ég virðist nefnilega einhvern veginn aldrei fá að tilheyra þjóðinni fullkomlega, þjóðinni sem ég tel mig tilheyra hvað mest. Og jafnvel þegar ég hef unnið mig upp í þá stöðu að flest fólk sé farið að taka mark á mér sem hverjum öðrum Íslending, þá ómar „helvítis útlendingur“ alltaf sterklega í hausnum á mér þegar umræðan sprettur upp. 

Nú er ég næstum jafn gömul og Edda Björgvins var þegar hún lék Stellu í orlofi, eini munurinn er að nú er ekki árið 1986, heldur 2024. Framþróunin hefur í rauninni ekki verið meiri en sú að nú erum farin að nota gervigreind til að ráðast á saklausa íbúa sem eru innlyksa á hernumdu svæði og fólk óttast frekar bakslag við það að fordæma barnamorð en að stunda innherjaviðskipti. Eða ég gef mér að það hljóti að vera ástæðan fyrir því að ráðafólk segi ekkert, taki enga afstöðu. Þess vegna er allt þetta velmeinandi fólk þarna úti sem þorir ekki að rugga bátnum, því það heldur að því verði refsað fyrir að fordæma morð á litlum, saklausum brúnum börnum (allt í lagi að taka afstöðu ef börnin eru hvít).

En er almenningi ekki refsað sama hvað, hvort sem við fordæmum eitt og annað eða ekki? Allt þetta harðduglega og atorkusama fólk, sem leggur hörðum höndum að sér að halda þessu samfélagi gangandi. Fólk sem elskar Stellu í orlofi, eða ekki, talar íslensku eða ekki, fæddist hér eða ekki. Fólk sem þráir ekkert annað en að elska frjálslega og lifa í öryggi, en fær sífellt minna og minna á meðan þau ríku fá mest. Fólk sem borgar himinháa vexti eða leigu til að eiga þak yfir höfuðið og á meðan auðvaldið stendur og bendir á blóraböggla í allar áttir svo enginn sjái óreiðuna sem þau sköpuðu til að þyngja í eigin pyngju. Hér er svo mikið af velmeinandi fólki, fólki sem hefur í ofan á lag látið sannfærast að þetta klúður sé allt á ábyrgð þeirra sem flýja örbirgð úti í heimi. Saklauss fólks sem flýr ólýsanlegar aðstæður og myndi sennilega aldrei nokkurn tímann láta sér detta það í hug að selja pabba sínum ríkisrekinn banka. 

Í sannleika sagt býður mér ekki bara ógurlega við þeim sem benda mest á og tala niður til fólks sem á enga málsvara í okkar samfélagi. Mér býður nefnilega mjög mikið við þeim sem eru óttalega velmeinandi og láta eins og þeim sé ekki skítsama um orðræðuna, skreyta sig gjarnan með orðum eins og inngilding og aðlögun, en vilja samt ekki taka afstöðu gegn fordómum, áróðri og hatursorðræðu. Temja sér hana jafn vel sjálf, bara nógu temmilega til að það hljómi eins og þau tali af ábyrgð. 

Hvað framtíðin ber í skauti sér veit ég ekki. Hvort ég verði orðin að einhverri Stellu í orlofi fyrir næstu kynslóð, það eitt getur tíminn sagt mér. En ef ég dreg upp fortíðargleraugun, gægist annars vegar hundrað ár aftur í tímann, og horfi svo nokkur ár fram á veginn, þá óttast ég að samfélagið stefni á svipaðar slóðir og fyrir öld. Ég óttast ekki bara þau sem hamra á útlendingaandúðinni til þess að slá ryki í augu fólksins í landinu, heldur óttast ég líka þau sem þora ekki að taka afstöðu gegn henni. Það eru þau sem fleyta okkur sofandi að feigðarósi, þangað til við vöknum einn daginn og sjáum að andúðin og hatrið sem við tókum ekki alvarlegt nú í dag, muni valda sársauka og voðaverkum í framtíðinni. Voðaverkum sem eru dæmd til að endurtaka sig þegar við gleymum því að það er þegar velmeinandi fólk gerir ekkert sem færibandið rúllar með okkur rólega áfram í átt til glötunnar.

Ég upplifi ótta þegar ég hugsa um allt þetta velmeinandi, venjulega fólk sem heldur að það sé á einhvern hátt skárra að tala um útlendinga sem vandamál heldur en að ræða bara það sem virkilega máli skiptir, hnignun heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og náttúrunnar. Það heldur að það hjálpi að ala á sundrungu og það er orðið eins og að taka afstöðu með mannréttindum sé eins og að grípa í sjóðandi heitt málmstykki. Pata bara höndunum í allar áttir, kasta stikkinu sín á milli og benda á einhverja aðra.