Dagarnir líða (DS)

Bækur.

Einu sinni voru bækur mitt helsta athvarf. Í bókum fann ég sögur og persónur sem dæmdu mig ekki, ég gat ferðast um ævintýraveraldir ímyndunaraflsins óhikað. Í morgun stóð ég fyrir framan hilluna í stofunni og fletti í mínum uppáhalds bókum. Bókahrúgan á stofuborðinu hefur sömuleiðis stækkað, svo margt sem ég hef viljað lesa (og ætla að lesa!). Allt í einu finn ég bæði hugarró, tíma og áhuga á öllum þessum bókum. Gleðin sem áður var við að lesa fallegt ljóð er komin aftur.

Í sannleika sagt var sennilega of mikið álag á hausnum á mér síðustu ár til að ég hefði nautn af því sem ég áður taldi stóran part af sjálfri mér. Ég hef verið að enduruppgötva hvað það hefur í alvöru skipt mig máli að lesa bækur, njóta bóka og skrifa.

Þegar maður reynir að halda utan um heimilishald, fjármál, vellíðan manna og dýra í gegnum veikindi og sálrænar áskoranir sjálfs sín og annara, svo gott sem einn síns liðs - hættir að vera tími fyrir alla núansa manns eigin persónu. Náttúrulega tapast allur tími og orka fyrir sjálfinu.

Síðustu mánuðir hafa því verið lærdómsríkir. Að ég geti allt í einu pælt í og mótað minn eigin tíma, áhugamál, nautnir og hvað annað - er eins og að fara yfir landamæri í ósnortið land. Eða land sem ég man varla eftir að hafa heimsótt.

Þar sem ég stóð við bókahilluna í dag þakkaði ég fyrir það ríkidæmi sem ég hef. Allar þessar dásamlegu bækur. Þak yfir höfuðið, góða vini og gott nánasta fólk. Ég veit ekki hvort þau viti að þau hafi bjargað geðheilsu minni þessa síðustu mánuði. Sum hafa verið þar í mörg ár, önnur skemur. Þau hafa ólíkum hlutverkum að gegna, sum hafa vakið mig til gleði í gegnum erfiðleika síðustu ára - önnur hafa síðustu misseri endurkveikt mitt innra passion [mína innri ástríðu] fyrir ljóðum, bókmenntum og fegurð lífsins. Fyrir það sérstaklega er ég þakklát - og sú manneskja sem á mesta kveikjuna af því er mér sennilega dýrmætari fyrir vikið en hún getur sjálf gert sér grein fyrir.

Ást mín á ljóðum er vöknuð aftur. Ég er vöknuð aftur.

Loksins.