Heimsókn norður í land
Kvöldið í Svarfaðardal byrjaði við varðeldinn. Eða bálköst í stáltunnu. Þartilgerðri stáltunnu með loftgötum til að auka loftflæðið. Ekki bara einhverri stáltunnu - svona alvöru. Nóg af spreki og þurrum við sem hafði greinilega fallið til í garðvinnu heimilisfólksins. Hópurinn sat í hálfhring, síðar hring, nálægt varðeldinum (bálkestinum), en eiginlega nær grillinu þar sem pylsurnar mölluðu í hálfum hljóðum. Ég gekk auðsjáanlega beint inn í dásemdar hóp af fólki, frænka mín og maðurinn hennar sem buðu mér með, tvö vinapör þeirra og ég áttaði mig eiginlega ekki á síðasta manninum - bóndi af næsta bæ? Hver veit. Fólk héðan og þaðan, úr íslenskri sveit og bæ, sem höfðu búið erlendis á einhverjum tímapunkti lífs síns en voru nú öll flutt norður til Dalvíkur eða nærsveita (í Svarfaðardalinn).
Við færðum okkur inn þegar byrjaði að rigna. Stórkostlega reisulegt hús sem Björk, gestgjafinn, hafði alist upp í og var nú sjálf nýbúin að kaupa. Ég átti ekki eitt aukatekið orð hvað það var fallegt. Þau voru höfðingjar heim að sækja og þegar við kvöddumst bauð hún mér að koma hvenær sem er og gista - því það væru enda fimm svefnherbergi í kjallaranum. Svo sýndi hún mér þau, öll fallega uppábúin herbergi. „Hér gætirðu komið og málað, enda stórkostlegt útsýnið“. Ég var nýbúin að mála vatnslitamynd af lampa í stofunni þeirra, á meðan ég hlustaði á vinahópinn spjalla um heima og geima (og kalkúnarækt, nýjasta áhugamál kartöfluræktendaklúbbsins Spíru) - og allt þar á milli. Björk rak augun í þetta litla vatnslitapóstkort mitt og spurði hvort hún mætti eiga það. Ég hálfskammaðist mín fyrir að hafa ekki boðið henni það af fyrra bragði, en mér fannst þetta svo ómerkilegt verk að ég ætlaði bara að hirða það sjálf. Mér fannst svo ánægjulegt að henni þætti litla myndin fín að ég gaf henni að sjálfsögðu verkið.
Kannski get ég litið svo á að þetta litla listaverk hafi orðið til þess að ég eigi heimagengt á bæinn Tjörn í Svarfaðardal og get mögulega kríað út gistingu í framtíðinni þegar mig langar að eyða tíma í sveitum Norðurlands, mála og horfa á fjöllin.
Dagurinn sem hafði byrjað í Reykjavík var að líða. Mér finnst einhvern veginn eins og það sé óralangt síðan þessi dagur byrjaði. Nú er klukkan 20 mínútur gengin í tvö. Um nótt. Það var miklu auðveldara að skjótast milli landshluta með flugi en ég hefði nokkurn tímann getað trúað. Deginum sjálfum var varið í að flakka um Eyjafjörðinn í glampandi sól og blíðu. Ég hafði hlakkað svo mikið til - ég vildi að ég gæti spólað til baka og hlakkað aftur til, því ég hef eiginlega engin orð til að lýsa því hvað dagurinn var ljúfur.
Svona hálfpartinn að ég fái gæsahúð, eða fiðring eða sambland af hvoru tveggja: Dásemdar líf í sólinni, fuglasöngur í heiði og góður félagskapur. Veit fátt betra. Mér leið hreinlega virkilega vel í dag.
Ég finn að það eru einhver ljóð að brjótast um í mér sem þurfa að komast út, en þau birtast enn sem komið er bara sem setningarbútar í engu samhengi. Ég þarf að skrifa þessa búta niður og kannski á endanum fæðast einhver ljóð.