Ferðalok

Ég sit í ruggustól í herbergisholu í Svendborg. Sólin skín fallega inn um gluggann fyrir aftan mig og kastar skemmtilegum skugga af sjálfri mér á vegginn. Krullurnar mínar virka eins og óstýrlátur brúskur upp úr höfðinu, svona samhengislausar. Kirkjuklukkurnar eru á fullu, sem mér finnst smá skrýtið, svona klukkan 8 að morgni. Líkt og vekjaraklukka sem einhver gleymdi að slökkva á.

Í aðra röndina nýt ég þess að sitja hér og hlusta á vatnið í gosbrunninum í portinu fyrir framan húsið - þvílík dásemdarbyrjun á morgninum. Á hinn bóginn hef ég nýverið lokið við að lesa óhóflegt magn af fréttum og greinum um stýrivaxtahækkanir. Horfði á annað lánið mitt hækka um 8.000 kr á einu bretti og kvíði því þegar stærra lánið missir föstu vextina í vetur.

Hvernig er hægt að vera Íslendingur án dass af smá fuck it viðhorfi, þar sem allt í heiminum er hverfult: líka launin manns, húsnæði og fjárhagur.

Svo minni ég sjálfa mig á blessuðu forréttindin sem það eru að þetta séu mínar helstu áhyggjur. Ég er búin að lifa ágætis lífi upp úr ferðatösku einni saman síðustu 10 daga (merkilegt að mér finnst eins og það sé enn lengri tími). Ég gæti eflaust látið mér það nægja lengur ef ég þyrfti.

Ég hlakka til að komast heim til mín - á sama tíma og það er mjög heilbrigt að minna sig á að heimili manns er líka á einhvern hátt huglægt. Einhver staður þar sem manni líður vel. Þess vegna eru það forréttindi að geta yfirhöfuð upplifað þessa tilfinningu - að tilheyra, líða nógu vel til að eiga heima einhvers staðar.

En Ísland bíður, á morgun fer ég heim til fósturjarðarinnar eins og allar smáu bárurnar hans Jónasar. Það leynist ekki að ég hlakka mjög til.

Ég held nefnilega að sumarið bíði mín, bjartara en mig grunar. Ég get amk ekki hætt að hugsa um það.

En þangað til er einn sólarhringur í viðbót hér í Danaveldi og það er alls ekki slæmt heldur. Ég fæ að njóta sólarinnar og ferðast með lest. Algjör endemis lúxus.