Hörundsár
Ég var veik heima í dag, vaknaði með blússandi hausverk og hugsaði að kannski svona einu sinni ætti ég að fá mér te og kúra undir sæng, frekar en að þræla mér gegnum slappleika. Auðvitað slakaði ég ekki beint á þótt ég hefði eytt mestöllum deginum uppi í sófa. Ég nýtti tímann til að fara í gegnum kvittanir sem ég hef samviskusamlega reynt að halda til haga útaf verktakastörfunum mínum. Þær eru núna skipulega komnar í snyrtilegan bunka og ég er bara nokkuð stolt af þessu dagsverki.
Ég renndi í leiðinni í gegnum blaðabunka sem ég hef safnað einhverjum listrænni skrifum á (aðeins annars eðlis en kvittanirnar) og fann nokkra texta sem ég skellti hérna inn á síðuna. Bæði á íslensku og ensku, skrif og ljóð. Ég fann m.a. texta sem ég skrifaði stuttu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Manneskja sem stóð mér nærri notaði þá texta (sem voru handskrifaðir á blaði hérna heima) í sín eigin skrif. Mér þótti það upphaflega ekkert tiltölumál en þegar þau hreyktu sér af textaskrifunum á samfélagsmiðlum (og fengu mikið lof fyrir) án þess að gefa mér kredit, þá sárnaði mér það. Mér var að lokum þakkað fyrir innblásturinn eftir að ég innti eftir því - heilu hlutar textans voru nánast orðréttir upp úr mínum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér áðan og ég ákvað að skrifa textann í heild sinni hingað inn. Ég held að manneskjunni hafi kannski ekki fundist þetta eins mikið mál og mér, eflaust ekki áttað sig á því hvað mér þótti þetta leiðinlegt.
En að öðru. Talandi um stríð. Ég rakst líka á texta sem ég hafði skrifað við nýlegra tilefni og nefndi Hörundsár. Þessi texti vísar í tilfinninguna að verða fyrir fordómum. Ég set hann kannski eitthvert þegar hann verður fullunninn, sem hann er ekki, en inntakið er að ég vildi óska að fólkið í kringum mig skildi þessar tilfinningar. Á eigin skinni. Þótt ég myndi ekki vilja óska þeim sársauka, þá vildi ég óska að þau skildu þetta - svo þau væru virkari í and-rasisma sjálf. Það hefur nefnilega runnið upp fyrir mér ljós síðustu daga að margt fólk kippir sér svo ótrúlega lítið upp við hræðilegt ástandið í Palestínu, blóðug og sjokkeruð börn, dáið brúnt fólk, að það bara heldur áfram með lífið og tilveruna eins og það sé varla neitt í gangi. Sama fólk og kannski fór bara á hliðina í sorg og áhyggjum þegar ráðist var á Úkraínu. Það sem ég er að reyna að segja. Það er ótrúlega lýjandi að verða fyrir fordómum. Það er ótrúlega þreytt að fá klapp á bakið og hrós fyrir að standa sig vel í baráttunni þegar manni finnst það ekkert ná neitt lengra en það. Það er ótrúlega lýjandi að horfa á fólk fordæma stríð og árásir - sem réttilega á að fordæma - en bara þegar það á við um ákveðin fórnarlömb. Ekki öll fórnarlömbin fa sömu samúð.
Það minnir mig bara einhvern veginn á það að þegar á öllu er á botninn hvolft, þá er fólk frá þessum heimshluta, í augum valdhafa í okkar heimshluta (sem hafa áhrif á skoðanir almennings og fjölmiðla), alltaf bara annars flokks. Ég verð alltaf bara annars flokks. Þjáningar fólks sem lítur út eins og ég vekja ekki sömu tilfinningaviðbrögð og þjáningar fólks sem líta út eins og flestir vinir mínir og ættingjar hér. Og það er bara ótrúlega mikil byrði að bera - og ekki er ég einu sinni að burðast með byrðina að vera með persónuleg tengsl af svæðinu og áhyggjur af fólkinu sínu sem þar er. Ég finn svo til í hjartanu yfir þessu öllu.
Ég horfði annars á uppáhalds egypska grínistann minn, Bassem Youssef, í viðtali hjá Piers Morgan í gærkvöldi. Það bjargaði alveg kvöldinu mínu. Hann var stórkostlegur. Ég er ekki aðdáandi Piers en Bassem talaði sem betur fer frekar mikið og notaði húmor og kaldhæðni til að koma mjög góðum punktum á framfæri - eins og góðum satírista er einum lagið.
Nú get ég ekki haldið aftur af geispunum. Ég verð að fara að sofa. Slekk á útvarpinu, Rás 2 búið að vera í gangi í sólarhring og ég minnt á að stundum eru alveg ruglaðir hlutir á dagskrá. Um kvöldmatarleytið var eitthvað hardcore teknó. Núna er eitthvað sem ég held að sé 90’s hipphopp. Fjölbreytileikinn, skemmtilegur.
Þrátt fyrir þetta allt gat ég þó allavega glaðst yfir einu. Merkilegt nokk færði það hjarta mínu ómælda gleði og eiginlega einhvern frið, að ég útbjó loksins skjal fyrir öll nýlegu ljóðin mín. Ef ég ætla einhvern tímann að gefa út ljóðabók þá verð ég að byrja einhvers staðar. Ljómandi fínt fyrsta skref.