afmælisbarn

Ég á afmæli á morgun og sama hversu fullorðin mér finnst ég vera þá upplifi ég alltaf einhverja barnslega tilhlökkun þegar afmælið er að renna upp. Ég veit það sjálf að það verður engin veisla í ár - því ég hef ekkert nennt að skipuleggja - en mér finnst samt eins og ég eigi að búast við einhverju skemmtilegu.

Auðvitað býst ég við að það verði gaman að eiga afmæli - og það á sunnudegi - og hver veit nema ég slái til og haldi óvænt kaffiboð hérna á Laugarnesveginum. Burtséð frá því hvort ég nenni því eða ekki þá finnst mér eins og það sé búið að ala mann upp í að búast alltaf við einhverju svakalegu húllumhæ á afmælisdaginn. Svo setur maður pressu á sjálfan sig ef dagurinn er ekki eins spennandi og búist hafði verið við - eða finnist eins og aðrir muni líta á mann og hugsa „nú, ekkert gert á afmælisdaginn?“

Hvaða meðvirkni er þetta? Ætli þetta sé hluti af þessari klassísku félagslegu pressu sem er mikil á Íslandi - eða er þetta afmælisfyrirbæri þekkt út um allan heim. Kannski er þetta líka bara ég. Nú er ég smá að alhæfa um alla aðra líka.