Fleiri minningar af Túngötunni

Fyndið að síðasta færsla hafi einnig fjallað um Túngötuna, heimili ömmu og afa. Ég skrifa ekki nógu reglulega, gleðst yfir því að hafa verið nokkuð dugleg að gera það í París af því að ég þekki af reynslunni að það er gaman að lesa þessar færslur löngu síðar.

Í síðustu viku heimsótti ég Tálknafjörð líklega í síðasta skipti í einhvern tíma, í þeirri mynd sem ég hef alltaf þekkt bæinn og húsið. Frændi minn hefur nú keypt það, sem gleður mig mjög, en auðvitað má búast við að húsið breytist að einhverju leyti og verði nú meira húsið hans heldur en hús ömmu og afa sem ég þekki svo vel. Ég hlakka samt til að fá að fylgjast með húsinu áfram og gott að vita að það er í góðum höndum.

Það var samt skiljanlega skrítið að aka burt frá því svona í þetta skiptið og ég var mikið hugsi yfir því öllu. Verst fannst mér eiginlega hvað ferðin var stutt en ég var þar einungis í 4 nætur, til þess að geta mætt í útskriftina mína úr háskólanum.

IMG_7291.jpeg

Hrafnadalsá

Uppáhalds staðurinn þegar ég lék mér á sumrin fyrir vestan

En ekki vildi ég missa af útskriftinni heldur, svo ég þeyttist á milli landshluta með flugi - sem var alls ekki slæmt, ég hugsa að ef innanlandsflug væri ódýrara myndi ég eflaust nýta mér það mun oftar. Flugfélagið Ernir er með 50% afslátt í sumar vegna 50 ára starfsafmælis og flugmiðarnir því á ótrúlega góðu verði. Það munar heilum helling að keyra í 5 tíma og að fljúga í 30 mínútur. Ekki það, mér finnst aksturinn oft hluti af ferðalaginu en þá verður maður eiginlega að stoppa lengur en í 4 nætur.

Í þessari heimsókn kenndi ýmissa grasa og fékk ég að eiga nokkuð magn af málningu og öðru (m.a. silkimálningu) frá ömmu. Hún var ótrúlega listræn en byrjaði ekki að mála af ráði fyrr en hún kom suður á Hrafnistu. „Ég vissi ekki að ég hefði þetta í mér“, sagði hún um hæfileika sína, þegar allir dáðust að færni hennar með pensilinn.

Ég vona að ég geti nýtt mér eitthvað af þessu efni sem ég fæ í arf frá henni til að vera duglegri að rækta þær hliðar sem snúa að listsköpun, þó ég sé ekki í neinni þjálfun ef út í það er farið, heldur finnst þetta bara gaman.

Innst inni langar mig að gefa sjálfri mér meiri tíma í það dúllerí sem veitir mér mesta andlega gleði, eins og að mála og skapa. Og skrifa. Sem er ástæðan fyrir því að ég ákvað að líta hingað inn.