Lax og lestarmiðar

Ég fékk nýlega æði fyrir að elda lax handa sjálfri mér í kvöldmat. Fór í matarboð til kollega á laugardaginn og fékk ótrúlega góðan ofnbakaðan lax sem væri eflaust skemmtilegt að reyna að leika eftir, hefði ég ofn í íbúðinni.

Þar sem ég hef bara eitt stykki örbylgjuofn, sem er vissulega góður fyrir ýmislegt, þá hentar hann því miður ekki í þetta. Ég fann því uppskrift á netinu sem ég ætla að deila með ykkur, því ég er búin að gera hana tvö kvöld í röð og finnst hún alveg frábær.

(Note bene: ég bæti við pönnusteiktum kúrbítsneiðum þó þær séu ekki í uppskriftinni)

https://www.recipesmadeeasy.co.uk/panfried-salmon-sweet-potato-chilli-mash/

Þar hafiði það. Og ástæðuna fyrir því að litla 14 fermetra íbúðin mín lyktar eins og steiktur lax þessa dagana. Ég fann loksins kveikjara úti í búð í gær og gat því kveikt á ilmkertinu sem ég keypti fyrsta daginn, þannig að ég mun ráða niðurlögum lyktarinnar fljótlega. Þess má geta að kveikjari og batterí er eitthvað sem ég er búin að leita að síðan ég kom fyrst út og hef ekki fundið fyrr en í gær. Veit ekki hvort ég sé svona léleg í að leita, en mig grunar nú samt Frakkana um að koma þessum vörum einhvern veginn fyrir annars staðar en ég er vön, þar sem þær gætu verið hættulegar? Býst ég við. Ég hef amk ekki enn fundið aceton úti í búð.

Ég setti reykskynjarann líka í gang í fyrradag. Enginn í nágrenninu virðist hafa tekið því alvarlega því ég var ekki vör við nein viðbrögð þarna í kring. En ég var líka fljót að veifa honum út að glugga til að þagga niður í honum. Í gær mundi ég svo eftir því að hafa gluggann opinn á meðan ég eldaði.

Hér að ofan eru tvær myndir af fallegum flísum á stigagangi sem verður stundum á vegi mínum. Kann að meta svona smáatriði.

Annars þá ætlaði ég að deila upplýsingum um lestarmiða í París, ef þær kynnu einhvern tímann að koma einhverjum að góðum notum.

Mér var ráðlagt að byrja á því að kaupa 20 miða búnt og sjá hversu lengi það dugar mér. Ég er strax komin á annað búntið og ef ég næ ekki að láta það duga eitthvað lengur en þetta fyrsta búnt, þá fer ég sennilega og kaupi mér mánaðarpassa. Ég er svo ótrúlega heppin að Frakkarnir ætla að gefa út kort næsta haust (eftir að ég er farin) en á það kort er hægt að hlaða inn miðum, þ.e. í staðin fyrir að ganga um með bunka af litlum lestarmiðum á sér eins og í fornöld.

Ég keypti mér einhvern tímann litla gula buddu sem á stendur París (no joke, random AliExpress innkaup) og miðarnir passa fullkomlega í hana. Það hefur komið í veg fyrir að ég eyðileggi segulröndina á þeim með því að hafa þá of nálægt símanum mínum og/eða kreditkortunum mínum.

Fyrir stutt ferðalög til Parísar mæli ég persónulega með þessum bunkum (upp á kostnaðinn þ.e.a.s.) þó maður þurfi að koma sér upp einhverju kerfi til að meðhöndla þessa miða:

  • Geyma miða á ákveðnum stað - fjarri síma og öðrum segulröndum

  • Nota miða

  • Geyma notaðan miða á meðan maður er í þeirri ferð í metroinu, ef verðirnir skyldu biðja mann um sönnun á fargjaldi (Mikilvægt)

  • Fara út úr metro - henda miða í ruslafötu (ekki á jörðina - það tekur þessar elskur heilt ár að brotna niður í náttúrunni): Best að henda þeim strax svo maður ruglist ekki á notuðum og ónotuðum miðum.

Fyrir ferðir til Parísar þar sem áætlað er að vera stanslaust í metroinu, er hægt að kaupa sér 1, 3 og 5 daga passa en ég hef enga reynslu af þeim.

Í kvöld hef ég hins vegar fengið nóg af hollustunni og ætla að fara á hitt stóra gyllta M-ið hér í borg og fá mér að snæða.

Bonne soirée,

Miriam í París

(myndin við bloggið er af konu sem ég sá að bíða eftir lest um daginn, mér fannst taupokinn hennar svo skemmtilegur)