.

View Original

Kvíðavinurinn

Sesselja strauk andlitið á milli handanna. Kramdi það eiginlega og dró um leið lófana upp eftir kinnum og greip svo í hárið á sér. Af hverju var allt svona erfitt? Hvenær bjó þessi kvíði til svona mikið pláss innra með henni. Henni fannst eins og hún myndi eftir tíma þar sem þetta var ekki stöðugt ástand eins og nú. Á sama tíma var eins og hún hefði alltaf verið svona.

Þegar fólk sagði - aðallega þegar hann sagði - við hana, „þú ert samt ekki svona“, þá varð hún pirruð. Pirruð yfir því að finnast hann vera að láta eins og hann þekkti hana betur en hún sjálf. Pirruð yfir því að á einhvern hátt hafði hann rétt fyrir sér - en samt ekki. Hún vildi ekki vera svona, hún var bara svona. Ef hún hefði ekki verið með kvíða og undirbúið sig af varkárni fyrir allar aðstæður, hver veit hvað gæti gerst. Kannski hefði allt gengið á afturlöppunum.

Vinunum stökk oft bros í brá þegar hún hélt því fram. Minntu hana á að hún hefði oft treyst þeim fyrir ævintýrum sem voru óundirbúin. Henni fannst það samt öðruvísi. Þá voru þau hópur. Gátu gripið hvort annað. Hvernig átti hún að láta ef hún var ein að reyna að grípa sig. Það hafði henni aldrei tekist vel.

Hún vissi reyndar að þetta var lygi. Það höfðu komið upp atvik í lífi Sesselju þar sem hún neyddist til að grípa sjálfa sig af því að enginn annar gerði það.