.

View Original

Hingað inn?

Hingað inn lít ég varla lengur. Ég veit ekki hvað kemur til. Ég gæti skellt skuldinni á forritið sem ég nota við skrifin, því það er eitthvað að því. Textinn kemur allur á skjön ef ég reyni að skrifa í það beint (þetta er því allt skrifað beint á farsímann).

Ekki get ég um það kennt að ég hafi ekkert að skrifa um. Mér finnst margt hafa á daga mína drifið og ýmislegt kannski óuppgert.

Að einhverju leyti er ég uppgefin. Ég reyni að takast á við það daglega líf sem mér er búið á sama tíma og stærsta mannúðarkrísa sem ég hef orðið vitni af á sér stað í næsta nágrenni við Egyptaland. Það er erfitt að halda dampi. Ég dáist að baráttunni í fólki. Ég hef ekki gefist upp en ég upplifi á einhvern hátt vonleysi. Kannski breytist ekkert.

Hvað þarf til?

Og ekki get ég því um kennt að það brjótist ekki um innra með mér sköpunarkraftur. Hann er ólgandi. Ég veit ekki í hvaða átt ég get beint honum eða hvernig ég beisla hann. Ef ég gæti gripið hann og spurt hann hvaðan hann kæmi myndi hann draga mig upp í himingeiminn og sína mér augnablik héðan og þaðan frá síðasta ári.

Ástin skapar þessa orku. Orkuna sem fær mig til að skapa. Þannig á sér einhver hringur stað. Ástin í sköpunarverkinu.

Nema það að ég skapa yfirleitt ekki neitt af því sem mig langar að skapa.

Óbeislaður krafturinn hleypur úr einu í annað og staldrar aldrei nógu lengi til að fullmóta eitt né neitt.

Mitt í hringiðunni finn ég ró. Þar ligg ég í fanginu, umvafin hlýju og öryggi sem aldrei fyrr.


Myndin efst í færslunni er frá Akureyri. Ég tók hana á Kaffi Ilm í gær. Ég skellti mér norður til að koma ástinni á óvart. Ástinni sem færir mér svo mikla gleði og hamingju að ég hélt að slíkt væri ekki mögulegt.

Ég veit fátt dásamlegra en hversdagslegar athafnir í þessum félagsskap. Félagsskap sem ég vil helst hafa í kringum mig öllum stundum.