.

View Original

Laugardagskúr

Sængin er einhvern veginn léttari og það er ljúfara að renna tánum fram og til baka meðfram henni þegar ég á helst að fara fram úr, einn, tveir og bingó. Þess vegna finnst mér ég hálfpartinn hafa unnið í happdrætti þegar ég upplifi þessa tilfinningu á laugardagsmorgnum.

Þá get ég teygt úr mér á alla kanta, farið aftur að sofa eða bara legið í rúminu fram að hádegi ef mér sýnist svo.

Ég var líka veik heima í gær og löngu búin að ákveða áður en það gerðist, að ég ætlaði ekkert að gera um helgina. Með mikla áherslu á ekkert.

Líkaminn kallar á hvíld.

Ég er líka með nýja dýnu í rúminu mínu sem ég er óskaplega ánægð með hingað til. Hún kostaði mig ekki hvítuna úr augunum svo þótt hún endist ekki nema í nokkur ár, þá held ég að hún hafi verið þess virði. Vonandi endist hún sem lengst.

Svefn er svo ótrúlega mikilvægur. Ég verð svo lítil í mér og undarleg þegar ég er illa sofin. Eins og hálf útgáfa af sjálfri mér. Kannski verð ég að einhverju leyti úrill. Þá langar mig mest að hjúfra mig upp við kærastan minn og stinga nefinu í hálsakot, eins og ég gerði hjá foreldrum þegar ég var barn. Lífið fer í hringi.

Ég svaf mjög illa fyrir um það bil ári síðan og í nokkra mánuði á undan. Það hefur dregið dilk á eftir sér - getur verið erfitt að vinda ofan af því. Ég held samt að það sé allt á réttri leið nú þegar mér líður betur.

Það er líka hækkandi sól og þá fyllist maður auka orku. Ekki það, sólin er víðs fjarri þegar þetta er skrifað. Hér er myrkur og læti í vindinum.

Allt eins og það á að vera í byrjun febrúar.