.

View Original

partý

Í gærkvöldi heyrði ég óma tónlist inn um eldhúsgluggann. Það var auðheyranlega partý í hverfinu og hópur ungs fólks öskursöng með laginu Lay all your love on me með ABBA. Ég var búin að gleyma því hvað ég er hrifin af þessu lagi, það er eitthvað attitúd í því sem mér finnst svo skemmtilegt. Á meðan ég stóð við eldhúsvaskinn og þvoði málningarrúllur fyrir svefninn (ég var í óða önn að klára að mála herbergi, kláraðist í dag!) hugsaði ég hvað það virkaði ótrúlega skemmtilegt í þessu partýi.

Eftir að ABBA lagið var búið mátti heyra hlátrasköll og svo byrjaði næsti slagari. Man að vísu ekki hver hann var en ég brosti með mér, það er örugglega ótrúlega skemmtilegt í þessu partýi. Það lá við að mig langaði að hoppa í glansgallann og hlaupa út, reyna að staðsetja partýið og bara mæta, halló! Hér er ég, má ég koma inn fyrir? Svo fannst mér tilhugsunin kjánaleg, slíkt myndi bara einhver rugludallur gera.

Í nokkrar sekúndur (jafnvel bara sekúndubrot) var ég sátt við þessa niðurstöðu. Ég yrði bara að vera heima að þvo málningarrúllur á meðan ungviðið í nágrenninu trallaði og söng með ABBA. I still don't know what you've done with me, a grown-up woman should never fall so easily. Ég hummaði lagið í hálfum hljóðum, það virtist ætla að festast í heilanum á mér. Að þessum nokkrum sekúndum liðnum mundi ég soudainement að ég hafði einu sinni verið rugludallur sem mætti í ókunnugt partý algjörlega óboðin. Jeminn, ég var bara boðflenna par exellans.

Þetta var þegar ég bjó í París.

Ég hafði farið út í drykk með Iidu vinkonu minni frá Finnlandi. Ég og Iida fórum alltaf á sama barinn rétt hjá Pigalle metróstöðinni, nú man ég ekki hvað staðurinn hét en barþjónninn hét Alex. Hann gerði alltaf Espresso Martini fyrir mig og Aperol Spritz fyrir Iidu. [Í leit minni að nafni staðarins fór ég í gegnum mikið magn af ljósmyndum, vá hvað ég var heppin að búa í París]. Við Iida laumuðumst stundum á þennan stað þegar við nenntum ekki að vera með hinum starfsnemunum, sem voru ívið yngri en við, á knæpum þar sem bara var hægt að fá bjór og hann á 1 evru. Við vorum vaxnar upp úr þessu Erasmus+ dæmi sem okkur fannst þau vera í. Örlítið kaldhæðnislegt í ljósi vinnunnar sem ég sinni núna.

Allavega, ef ég man rétt þá fórum við tiltölulega snemma heim, ég kom eflaust við á McDonalds og keypti mér franskar til að éta yfir Parks and recreation þegar ég kæmi inn. Eins og yfirleitt þegar ég fæ mér Espresso Martini var ég frekar hress þegar ég kom heim (náttúrulega stútfullt af koffíni - og vodka) og vissi svosum að ég næði ekki að sofna strax. Ég reyndi þó - en það sem hélt fyrir mér vöku var hávaði úr einhverju partýi í húsinu þar sem ég bjó. Þessu var ég alls ekki vön, því ég hélt að í húsinu ætti enginn heima sem héldi partý. Fannst allavega það fólk sem ég hafði rekist á ekki benda til þess að þau væru miklir djammarar.

Tónlistin var ansi hávær og ég heyrði líka læti frá gestum á ganginum sem voru að koma eða fara.

Í augnablik hugsaði ég með mér hvort ég ætti að kvarta, það var eftir allt orðið mjög áliðið. En þá mundi ég að ég var barasta ekkert þreytt. Í einhverju sem ég gæti kallað hugsunarleysi, eða kannski djörfung, greip ég einn bjór úr ísskápnum og fór fram á gang. Ég labbaði upp tvær hæðir (gat það verið, að hávaðinn væri að berast mér í gegnum heila íbúð?) og rann á hljóðið. Ég fullvissaði mig um að ég væri við réttar dyr, lagði eyrað upp að, jú hér var partý. Bankaði svo.

Tveir franskir gæjar komu til dyra og spurðu í afsökunartón (þeir voru samt örugglega ekkert sorry) hvort það væri hávaði - og hvort það væri að trufla mig? Ég sagði jú það væri nú hávaði en benti svo bara á bjórinn minn og yppti öxlum, hvort ég mætti ekki bara koma inn? Þeir litu á hvorn annan og virtust pínu hissa á þessari rugluðu nágrannakonu og hleyptu mér svo bara inn brosandi.

Ég spjallaði við ósköp fáa í þessu partýi. Ég var eiginlega meira upptekin af því að virða fyrir mér íbúðina. Íbúðin mín, sem mér fannst ansi rúmgóð, var á einhvern hátt svipuð þessari. Klósettið var á sama stað. En það var búið að hólfa þessa niður í fjölmörg herbergi að mér fannst. Stofan var pínu lítil og inn af henni voru (held ég) tvö herbergi. Kannski náði íbúðin lengra inn fyrir hornið á húsinu (mín gerði það ekki), en mér fannst þetta allt saman mjög forvitnilegt. Kannski var ég þó orðin svolítið þreytt á þessum tímapunkti því ég nennti voðalega lítið að mingla við gestina - sem voru líklega á svipuðum aldri og ég.

Kannski ögn yngri. Ég dansaði með þeim sem dönsuðu í stofunni og drakk bjórinn minn. Brosti og kinkaði kolli í átt til fólks sem gerði slíkt hið sama til mín. Annars voru þau ekki heldur að pæla í mér neitt sérstaklega. Kannski fannst þeim vera mín þarna ekkert merkileg, kannski héldu þau öll að ég væri einhver sem einhver þekkti. Ég veit ekki nafn neins sem var í þessu partýi. Ef einhver sagði mér til nafns, þá man ég það ekki í dag.

Ég kláraði bjórinn og þakkaði fyrir mig á leiðinni niður. Sumpart sé ég alltaf smá eftir að hafa ekki lagt meira á mig að kynnast þessum nágrönnum mínum betur, kannski hefði ég eignast vini á stigaganginum. Aðallega finnst mér þetta bara fyndin minning. Hvað var ég eiginlega að spá? (haha!) Algjör rugludallur. Þetta var sem betur fer bara venjulegt ungt fólk að halda partý.

Kannski muna einhver þeirra eftir partýinu þegar skrýtna ókunnuga konan kom og bauð sér í veisluna frekar en að kvarta yfir hávaða? Hver veit.

Ég gleymi þessu vonandi seint, nú er þetta líka skrifað hér svo ég get rifjað það upp hvenær sem er. Næst þega ég heyri ABBA spilað úr nágrannahúsi á laugardagskvöldi ætti ég kannski bara að láta slag standa og þefa uppi partýið.