Rökkur
Ég hef mikið skrifað um sumarið hingað inn, enda náttúrulegt sumarbarn verandi fædd í júlí. Sumarið, með langar, bjartar nætur, er uppáhalds árstíminn minn. Nú er tæknilega séð enn sumar - það var ótrúlega hlýtt í gær þegar ég skottaðist heim úr vinnunni. En, þar sem komið er fram í síðari hluta ágústmánaðar er orðið dimmt á nóttunni, sem er kærkomið fyrir svefninn. Mér finnst þetta einhvern veginn alltaf þýða sjálfkrafa að sumarið sé búið og nú sé komið haust.
Í gær leitaði ég að ljóðum um haustið til að skella á tússtöfluna við starfsmannainnganginn í vinnunni (þar eru búin að vera sumarljóð síðan í vor) og ég fann ekkert nema ljóð með línum á borð við „nú er komið hrímkalt haust, horfin sumarblíða” og annað álíka niðurdrepandi. Haustið er nefnilega einstaklega hugguleg árstíð. Hægt er að kveikja á kertum og kúra uppi í sófa yfir góðum bíómyndum. Laufblöðin verða lítrík og falleg — setja mark sitt á umhverfið líkt og freknur sem lita mannslíkamann. Ég elska freknur.
Þessi eilífa þrá mín fyrir að vera úti og njóta góða veðursins víkur fyrir hvíld undir teppi og rómantískri stemningu í rökkrinu. Afslöppun par excelans.
Myndin er tekin í París í ágúst 2019 en þessi veggur átti eftir að verða stórglæsilegur þegar leið á haustið. Með haustinu kemur nýtt upphaf, þegar fólk snýr aftur í rútínuna - endurnært eftir sumarfrí. Allavega í Frakklandi, þar sem er alltaf talað um la rentrée á þessum tíma. Ég sakna Parísar - ætli ég þurfi ekki að drífa mig í heimsókn bráðlega.
Haustið hefur bráðum innreið í líf mitt - og ég held það verði bara dásamlegur tími.