.

View Original

Systurnar

Ég sit í bíl með systrunum Guðnýju og Helgu. Þær eru á aldri við mömmu mína, hressar og kátar. Ferðin liggur í austurátt og áfangastaðurinn er Þórsmörk. Það vill svo til að Þórsmörk er einhver uppáhalds staðurinn minn á jarðríki. Kynngimögnuð náttúran þess eðlis að auðvelt er að trúa hvernig goðsögur verða til. Það er eitthvað goðalegt við Mörkina.

Guðný og Helga eru mikið að velta fyrir sér hvar sé lúsmý á landinu. „Er það í skóginum?” spyr Helga, og vísar í Þórsmörk. „Er ekki alltaf padda í skógi?” svarar Guðný. Það eru tuttugu ár síðan þær hafa komið í Þórsmörk. „Er ekki langt síðan þú hefur komið í Þórsmörk, Miriam Petra?” spyr Guðný. Ég er ekki oft ávörpuð með báðum nöfnunum, en það er kannski til marks um að Guðný kynntist mér þegar ég var á leikskóla. Mamma ávarpar son hennar alltaf með báðum nöfnum líka, en Auðunn Guðni er einmitt einn elsti vinur minn. „Það er nú eitthvað styttra síðan ég var þar,” svara ég minnug þess að hafa farið tiltölulega nýlega með mínum fyrrverandi. Þórsmörk varð smá staðurinn okkar en þess má þó geta að við fórum ekkert svo oft þangað. Við töluðum um það ansi oft, eins og svo margt annað. Fyrsta - og liggur við eina - útilegan okkar var þangað. Ég lagði mikið upp úr því að gera hana sem huggulegasta en þær urðu síðan ekki mikið fleiri en það. En við fórum í einhverja bíltúra þegar við fengum lánaða jeppa. Það var kannski ekki það að mig langaði endalaust að hanga í Þórsmörk, en ég varð fljótt leið á mímörgum háfleygum hugmyndum og loforðum um allt sem við gætum gert en var aldrei framkvæmt eða varð að engu. Við vorum kannski líka með ólíkar hugmyndir um hvað þyrfti að eyða í ferðalög. Fátt gleður mig meir en einföld útilega með smá snarli og pylsum í tjaldi - en ég held að það sé ekki allra.

Við stöllur erum nú rétt ókomnar á Hellu. Þær eru nýbúnar að ræða prjónaskap enda skilst mér að þær hafi mikinn áhuga á honum. Hér einhvers staðar er hægt að kaupa garn, „en það er heldur dýrt”, heyrist mér þær segja.

Á Hellu ætlum við að kaupa pylsur. Mikið er ljúft að vera í sumarfríi og geta skotist svona fyrirvaralaust.