Heima
Ég kom rétt í þessu inn úr dyrunum, nýkomin til landsins. Þessa helgina fór ég með vinahópnum mínum til Lundúna til að horfa á einhverja frægustu söngkonu okkar tíma stíga á svið (Beyoncé!). Þar var dásamlegt veður og í einhverju þakklætismóki rifjaði ég það upp með þeim hvað ég hafði verið á slæmum stað þegar þau keyptu miðana á tónleikana og ákváðu yfirhöfuð að fara. Mér hafði verið skapi næst að afþakka boðið um að fara með, þar sem þetta var rétt eftir sambandsslitin og líf mitt einhver mesta óreiða sem það hefur verið - sennilega síðan pabbi dó allavega.
Ég mundi varla eftir því að hafa sagt já og millifært á Agnesi fyrir miðunum en hafði þó rænu á því að kaupa flugmiðana tímanlega. Þannig að það kom mér eiginlega á óvart að ég væri að fara á tónleikana, fyrir nokkrum vikum þegar þetta rifjaðist allt saman upp fyrir mér.
Við fórum öll með sömu vél út og sömu vél heim og þessi helgarferð var stórkostlega skemmtileg. Við hlógum svo mikið að ég er (liggur við) með harðsperrur í hláturvöðvunum.
Það er annars ósköp ljúft að vera komin heim. Það er snemmsumars rökkur úti, ekki alveg orðið bjart alla nóttina, en fuglarnir syngja og grasið er orðið grænt. Þegar ég gekk inn í íbúðina mína í þetta skiptið fann ég sérstaklega fyrir rósemdartilfinningu sem ég hef svolítið saknað þess að finna. Sennilega er það þannig þegar maður hefur átt heimili með annarri manneskju og tveimur mjög elskuðum hundum - þá tekur smá tíma að venja sig á því að vera þar ein og gera íbúðina að sinni. Ég hef tekið mér góðan tíma í það að rækta það að ég (og annað fólk sem hingað kemur) upplifi að hér búi ég.
Mikið þótti mér þess vegna gott að koma inn í íbúðina og upplifa þessa tilfinningu. Ahh, heima, hér á ég heima. Velkomin heim, ég.
Ég braut heilann eitthvað um þessa sálma í fluginu á leiðinni heim og komst einmitt að þeirri niðurstöðu að ég hefði tekið allar bestu og nauðsynlegustu ákvarðanirnar fyrir sjálfa mig og mína hamingju: það sem ég finn núna að er byrjað að blómstra í hjartanu á mér er eitthvað dýrmætt og ég verð að fylgja því, sjá í hvaða dásamlegu ævintýri það leiðir mig.
Nú legg ég augun á koddann eftir langt ferðalag, þakklát fyrir að eiga heima á mínu eigin heimili, þessum litla sælureit sem ég vona að ég geti haldið áfram að njóta, njóta með sjálfri mér og öðrum góðum gestum.