Orð laus
Ég verð ekki oft orðlaus. Ég er það á margan hátt í kvöld. Mig langaði að skrifa um síðustu daga, mig langaði að skrifa um bókina sem ég var að klára að lesa, mig langaði að skrifa um lífið og tilveruna. Einhvern veginn finn ég ekki orðin fyrir tilfinningarnar. En kannski um bókina:
Ég var að klára að lesa bókina Angantýr eftir Elínu Thorarensen, en Elín skrifar hana um samband sitt við Jóhann Jónsson skáld. Í bókinni eru einnig birt ljóð eftir Jóhann og smásögur sem hann skrifaði til hennar, ásamt bútum úr bréfum. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari bók fyrir fólk sem hefur áhuga á skáldlegri rómantík og alþýðuást á Íslandi. Bókin er endurútgefin af Soffíu Auði sem gerir frábæran eftirmála með skemmtilegum heimildum.
Mér þótti eitt sérstaklega skemmtilegt við lestur bókarinnar. Tekið er fram í bókinni að Elín hafi átt afmælisdagabók með íslenskum ljóðum en í hana hafði hún merkt daginn þeirra Jóhanns, 17. ágúst. Hún vitnar sjálf í þessa afmælisdagabók en á þessari dagsetningu er erindi eftir Davíð Stefánsson
Hvað varðar þá um vatnið
sem vínið rauða teyga?
Hvað varðar þá um jörðina
sem himinninn eiga?
Þegar ég las þetta stökk ég til og greip í litlu afmælisdagabókina sem ég á í hillunni - ég keypti hana í fornbókabúðinni á Klapparstíg fyrir mörgum árum - og viti menn, sama vísa var á sama degi. Mér þótti svo magnað að Elín hafi átt alveg eins bók, sem hún fletti í mörgum árum eftir andlát Jóhanns.
Þessi bók var virkilega falleg en á sama tíma erfið lestrar, því ég hélt svo með þeim. Ég hafði í huga mér svo margt sem ég vildi skrifa um hér út frá þessari bók, en ég er alltof þreytt og tilfinningarík til að koma neinu almennilegu í orð. Alveg orðlaus. Þannig að ég ætla að láta Jóhann eiga síðasta orðið, en hann kemst vel að orðleysinu í bréfi til Elínar sem birt er í bókinni:
En ég hefi ekki sagt þér það eins vel og mig langaði til, því að tunga mín er bundin, og nú eru hugsjónir mínar sem vængbrotinn örn. En öllu, sem fegurst er, fáum við ekki lýst með orðum. En þú átt mín óortu ljóð sem hin ortu, en þau verður þú að lesa úr augunum mínum, þegar mín orð fá ekki lengur lagt fjötur á vængi þeirra.
Ég get ekki einu sinni komið því betur í orð að ég sé orðlaus en að segja að ég sé orð… laus.
Tunga mín er bundin og hugsjónir sem vængbrotinn örn. Lestu það úr augum mínum sem ég vil segja.
Hversu magnþrungið hjá þessu unga skáldi. Þakklát Elínu fyrir að hafa skrifað bókina Angantý um samband þeirra - en án hennar hefði öll þessi þekking á forboðnum ástum úr bláköldum íslenskum raunveruleika, sem og þekking okkar á persónunum sem þau voru bæði - glatast. Ef bara fleiri konur hefðu haft tök á að skrifa bækur út frá eigin hugðarefnum, bréfum og samböndum - hversu mikilli þekkingu væri við aukið um lífið fyrr á tímum?