Danmörk í lest
Skrifaði þetta á leiðinni til Svendborgar:
Kvöldsólin skín beint í augun í mér, í gegnum fallegan grænan gróðurinn. Danmörk þýtur hjá. Það er eitthvað við himinninn hér sem minnir mig á Ísland – ólíkt himninum á Spáni. Kannski er það bara ímyndun í mér. Nú starði ég óvart beint í sólina og sé varla til þess að skrifa þennan texta. Bletturinn eftir sólina eltir stafina yfir skjáinn.
Eftir því sem lengra líður á þessa lestarferð færist meiri ró yfir mig. Ég er vissulega ekki nærri því komin á áfangastað en það splittar ekki diff því ég náði lestinni og get farið að anda léttar. Þetta var sennilega helsti óvissuþátturinn við þetta ferðalag. Ég bókaði flug frá Madrid nógu seint til að ná að taka þátt í rafrænum spjallborðsumræðum um inngildingu, sem var skipulagt fyrir löngu. Ég vildi vera eina aukanótt í Madrid og fljúga í dag – frekar en í gær – því ég hugsaði að það væri örugglega meiri sól í Madrid.
Ég fattaði það svo eftir á að til þess að vera komin til Svendborgar tímanlega fyrir vinnudaginn á morgun þá varð ég að ná lest þangað nú í kvöld. Það var aaandskoti tæpt miðað við flugið sem ég bókaði mér, því fljótlega eftir komutíma flugsins var nær ómögulegt að ná lest eða rútu til Svendborgar, án þess að þurfa að taka næturlest eða bíða þar til í daginn eftir.
Fluginu hafði seinkað um 20 mínútur svo ég lenti rétt yfir 19 og hafði þá sléttar 50 mínútur til að kaupa miða og ná lestinni. Þarna bölvaði ég því líka smá að hafa ferðast með allan þennan farangur en ég er vön að hlaupa í gegnum flugstöðvar með handfarangurinn einan við höndina. Þarna var ég upp á náð flugvallarstarfsmanna komin því 15 kg töskuferlíkið varð víst að koma með mér.
Eftir að hafa ákallað andskotann nokkrum sinnum við færibandið („Hvað er hann að vilja upp á dekk?“ heyrði ég rödd mömmu óma í hausnum á mér) komst loksins hreyfing á beltið. Töskurnar birtust hver á eftir annarri upp úr stokknum, eins og heimtar úr helju. Eftir að hafa lent á jörðinni með mér og hinum farþegunum þá fóru þær í eitthvað annað ferðalag.
Þegar taskan mín birtist loksins hafði ég sléttar 9 mínútur til að hlaupa út úr flugstöðinni og niður á brautarpallinn (ég treysti því að lestin yrði á réttum tíma þar sem ég væri eftir alltsaman í Danaveldi..). Ég hafði tekið sénsinn og keypt mér miða á þartilgerðu lestarmiða appi og var því tilbúin með miðann í höndunum þegar ég hljóp af stað.
Viti menn, ég náði lestinni, sjálfri mér til mikillar gleði. Þessi færsla fór í einhvern heilan hring, því ég fann hana hálfkláraða hér á tölvunni þegar ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað allt annað. Ég skrifaði hana upphaflega á ferðalaginu en fannst leiðinlegt að henda henni, svo hér birtist hún.