Kvefuð í Madrid
Það er ekkert mikið um það að segja, annað en að ég mæli ekki með því. Madrid er staður fullur af mat og bragði og lykt: hér er ekki gaman að missa bragðskyn og vera slöpp. Ég er öll að koma til, en í dag fer ég héðan - svo það gerir voða lítið fyrir mig.
Ég gerði annars smá mistök í gær. Fékk mér kaffi um kvöldmatarleytið. Þe, á spænskum kaffitíma. Kvöldmatur hér er náttúrulega seint að kvöldi. Ég spurði vin minn út í þetta fyrirkomulag. Það er morgunmatur, kaffipása, hádegismatur, síðdegissnarl og svo kvöldmatur.
Hádegismaturinn, 2-3ja rétta er milli 14-16. Síðdegissnarlið er milli 18-20. Og kvöldmaturinn, aftur 2-3ja rétta er í fyrsta lagi kl.21 (nema hjá börnum, þau borða aðeins fyrr). Prime time í sjónvarpinu er kl.23.
Kannski ekkert svo ósvipað okkar rútínu nema þetta hefst allt seinna og klárast seinna? Fyrir utan þessar margrétta máltíðir kannski.
En aftur af kaffinu. Ég hitti Morgaine vinkonu mína í kaffi í gær. Ætlaði að fá mér te en endaði á að panta eitthvað stórundarlegt kaffi með pipar og kakó. Og þeyttum rjóma. Það var ekkert sérstaklega gott. Lexía fyrir mig því svo svaf ég stórundarlega - dreymdi mikið og skrýtið og vaknaði nokkrum sinnum. Prísa mig sæla að hafa ekki verið andvaka.
Annars fer ég að rölta út á lestarstöð fljótlega. Sem er yfirdrifið snemma til að drösla sjálfri mér og töskunni á flugvöllinn (flugið er klukkan 16) en ég er víst að taka þátt í einhverjum panel umræðum um fjölbreytileika og inngildingu (á netinu) og vil vera búin að koma mér fyrir einhvers staðar með tölvuna áður en það byrjar. Ef ég bíð með að leggja af stað eftir að það klárast gæti ég lent í bobba.
Krossa fingur um að ég fái að tjékka töskuferlíkið inn þótt ég sé alltof snemma í því, svo ég geti komið mér inn í flugstöðina sjálfa en þurfi ekki að hanga á einhverju kaffihúsi í anddyrinu.
Þetta verður ævintýri. Hefði ég skipulagt mig öðruvísi ef ég væri að plana þetta allt núna? Já, heldur betur. En, þetta eru spilin sem ég hef og það verður að ráðast hvernig ég get spilað úr þeim og hvernig dagurinn mun fara að lokum.