Í Toledo
Erla er komin til Toledo. Síðast þegar við ferðuðumst saman erlendis vorum við 27 ára pæjur sem unnu báðar hjá Wow Air, svo við hoppuðum til Alicante. Þar sungum við Dancing Queen með ABBA á hálftómum karaokí stað og kættum hóp franskra kvenna sem voru að gæsa vinkonu sína. Þessi gæsun var eitthvað undarlegt dæmi, það var þriðjudagur og nánast allir klúbbar Alicante lokaðir - nema þessi Monte Carlo eða Monaco-esque karaokístaður. Þá meina ég barirnir á Laugavegi, 101 Reykjavík - ekki þessir staðir í sunnanverðri Evrópu.
Ég er sumsé stödd í Toledo í vinnuferð. Ætla ekki að tvínóna við smáatriði hér en ég er hélt vinnustofu um inngildingu í gær á þessum spænska Eurodesk fundi. Restin af fundarhöldunum er haldið á spænsku og þá reynir á menntaskólaspænskuna til að skilja hvað er í gangi. Það gengur… bærilega.
Erla ákvað að skella sér með flugi til Madrid og taka svo rútu seint um kvöld til Toledo. Ég var farin að halda að hún myndi aldrei ná þessu samdægurs - því lestin hætti að ganga hingað um það leyti sem hún lenti - en hún er andskoti útsjónarsöm og fann rútu, hjálpsama spænska konu og var allt í einu mætt á hótelið.
Við eigum eftir að finna eitthvað skemmtilegt að skoða þessa daga hér í Toledo og svo Madrid um helgina. Við ræddum einhvern veginn allt og ekkert fyrir svefninn, ekki mikið hvað við vildum gera hér í Toledo. Eiginlega bara allt annað. Hjartans mál, veðrið á Íslandi, veðrið hér, menningarmun.
Erlu er margt til lista lagt. Hún er m.a. bústýra kúabúsins á Lambavatni, Rauðasandi. Afskekktasta kúabú landsins. Jafnvel þegar hún er ekki á staðnum fær hún meldingar og spurningar frá starfsfólki um hin ólíku verkefni á búinu.
Á einhverjum tímapunkti litaðist samtalið af þessu á ansi skondinn hátt (fyrir mig allavega, sem er ekki vön bústjórn).
Ég, nýbúin að deila einhverju hjartfólgnu með Erlu: „já, mér hefur eiginlega bara aldrei liðið svona áður.”
Erla, samgleðst mér en andvarpar svo stuttu seinna: „Æi ég þarf að millifæra útaf búinu, svo þau geti keypt inn.”
Minnug þess sem Erla hafði sagt mér fyrr um kvöldið, að næstum allur farangur mömmu hennar - sem flaug vestur sama dag og Erla flaug til mín - var fullur af mat.
„Hvað er það sem þau þurfa að versla inn meira?”
„Æ það þarf að kaupa júgursmyrsl og piparmyntukrem”
„… já okei… Haha, til hvers er piparmyntukremið eiginlega?” Ég ímyndaði mér krem úr Body Shop.
„Til að smyrja á júgrin þegar þær eru að byrja að fá júgurbólgur”
“…já þú meinar,” sagði ég hugsi og gat svo sem engu bætt við það af viti. Ég datt aftur í dagdraumana sem kættu mig, á meðan Erla sendi fyrirmæli um innkaup alla leið frá Toledo á Rauðasand.