.

View Original

sumarið kom með maí

Allt í einu er sumarið komið. Veturinn kvaddi með því að æla síðustu snjókornunum yfir þjóðina síðasta fimmtudag, eins og til að minna á að við búum sannarlega á Íslandi. Ég var blessunarlega erlendis og missti af þessum ósköpum. Ég gat því haldið áfram að byggja upp draumkennda mynd mína af sumrinu. 

Dagarnir síðan ég kom að utan hafa verið sólríkir, sérstaklega síðustu tveir. Sólin skein af svo miklum krafti að ég hugsaði að nú væri sannarlega að koma sumar. Þessar stundir skipta mig alltaf máli, þegar ég finn árstíðaskiptin á eigin skinni. Það er eitt að trúa því að þau eigi sér stað, út frá dagatalinu, og annað að finna það: eins og þegar ég settist út í sólina á dögunum. 

Sólin stendur yfir mér og horfir á mig á meðan ég breiði út faðminn, finn hlýjuna og allt fellur í ljúfa löð. Mikið er hún dásamleg. Hlýr andvarinn kyssir kinnar sem hafa beðið alltof lengi eftir smá yl og mig eiginlega verkjar í munninn á því að brosa svona mikið. Það er eitthvað við sumarið sem vekur ótrúlega gleði.

Ég sest við eldhúsborð og hlusta á útvarpið mala, það er bjart yfir öllu þótt það sé nótt. Myrkrið er ekki myrkur á sumrin. Það getur að vísu valdið einhverju svefnleysi, en svefnleysi vegna sumars er hálfpartinn ljúft - ólíkt svefnleysi á veturna. Að rumska um miðja nótt og sjá sólargeisla í svefnherberginu er gleðiefni, því þeir minna mann á að sumarið sé hér. Þótt ég nái kannski ekki að sofna aftur er ljúft að liggja bara og vita að sólin ætli að taka á móti manni opnum örmum næsta dag. 

Ef ég gæti faðmað sumarið og sagt því hvað það gladdi mig mikið með komu sinni, gæti ég ekki komið því í orð. Ég myndi bara faðma það og loka augunum í þögn. Jafnvel þótt veturinn hefði verið auðveldur (sem hann var ekki) fóru þessir fyrstu sumardagar langt fram úr mínum björtustu vonum. Draumi líkastir. Eins og vilyrði fyrir því að framundan væru góðar stundir, fleiri heiðríkjudagar með fuglasöng, meiri fiðringur í maga og hlátrasköll. Ég læt mig dreyma.

Það er ekki hlýtt á Íslandi og sumardagurinn fyrsti er alltof snemma, en þessi hækkandi, hlýja sól og tilfinningin sem sumarið hefur vakið hjá mér er engri lík. Líkt og allur líkaminn sé rafmagnaður af eftirvæntingu. Undir húðinni ólgar næstum áþreifanleg orka sem mér finnst eins og hljóti að sjást utan á mér. Þessi rafmagnaða orka byrjar einhvers staðar niðri í tám og magnast upp á leið sinni upp líkamann, hringsnýst í maganum og spýtist svo upp í haus þar sem hún brýst fram í einhverju aulalegu brosi. Sumarið er uppáhalds árstíðin mín.

Ég leggst á koddann og loka augunum. Ég veit mig mun dreyma bjartar sumarnætur. Ég held það sé ekkert betra á þessu landi.