.

View Original

Blogg í Búkarest

Jæja. Lágt suð berst úr loftræstingunni í herberginu á Novotel hótelinu í Búkarest seint þetta aprílkvöld. Nú heyrist ekkert nema suðið. Í dag heyrðist ys og þys frá borginni, stundum yfirgnæfði það hljóðin úr loftræstingunni. Heimilið mitt er svo áþreifanlegt í huga mínum að ég gæti sannfært sjálfa mig að það væri hinu megin við dyrnar fram á gang. Ljóslifandi stendur það frammi fyrir mér þegar ég loka augunum. Fullt af fegurð og ljúfsárum minningum. En ég er í Búkarest og það er ekki eins og hvutti bíði heima. Ég sakna hvutta.

Ég þarf fátt annað en að hugsa um litla skinnið og þá gæti ég farið að gráta. Þetta sagði ég þremur ókunnugum konum á ráðstefnunni áðan. Tilefnið var svokallaður ísbrjótur, upphristingur, eða einhvers konar leikur þar sem við drógum miða með misheimspekilegum spurningum og áttum að ræða við annað fólk á ráðstefnunni. Helst ekki þau sem við þekktum, ef einhver.

Spurningin var, „hvað fær þig til að gráta?“. Ein kvennanna sagðist nýlega hafa misst móðursystur sína og ég vottaði henni samúð mína. Hún talaði annars mjög mikið en vegna kliðsins í herberginu heyrði ég restina af frásögninni takmarkað. Önnur þeirra talaði um að henni þætti svo gott að gráta, það væri svo góð losun og með aðstoð táknmálstúlks skildum við að sú þriðja var sama sinnis um það. Einn daginn ætla ég að læra íslenskt táknmál (það hefði að vísu ekkert aðstoðað í þessum aðstæðum, þau voru frá Slóvakíu).

Í dag þegar óveðurskýin hrönnuðust upp í útjaðri borgarinnar sat ég í herberginu á 8. hæð og hugsaði með mér að nú hlýti að fara að rigna. Ég ætlaði að sitja úti í gluggakistu og vinna á tölvuna en það var hálf óþægilegt, enda ekki gert til þess. Í smá stund gleymdi ég því að ég er hér í fundarferð, ekki bara send til Búkarest til að vinna á fartölvuna í hótelherbergi með þriggja klukkustunda tímamismun að heiman. Ég sofnaði værum blundi á rúminu og missti af einum fjarfundi. Ropaði út úr mér við samstarfskonuna að ég hefði ruglast útaf tímamismuninum, en það var náttúrulega lygi. Ég var svo þreytt eftir flugið. Það var dagsatt.

Við tókum fundinn stuttu seinna, þegar hún var laus. Á meðan við funduðum skall rigningin á. Rétt áður en hún hringdi hafði ég séð í hvað stefndi og stillti símanum upp í glugga og kveikti á myndavélinni. Svo ræddum við saman og ég lofa, ég hafði alla athygli mína á því sem hún var að segja – þar til eldingar lýstu upp himinninn og þrumur gáfu til kynna að þær væru ansi nálægt.

Mér þykir þrumuveður alltaf spennandi. Veit ekki hvers vegna ég upplifi spennutilfinningar gagnvart svona náttúruvá, líkt og ég upplifi líka í hríðarbyljum og jarðskjálftum. Þessu fylgir því náttúrulega að ég þarf að vera á öruggum stað til að finnast herlegheitin spennandi. Ætli það sé ekki til marks um forréttindi sem ég hef upplifað í lífinu. Ég er viss um það.

Regnið barði ansi duglega á rúðunni og ég var ákaflega þakklát fyrir að hafa dröslað sjálfri mér út í langan göngutúr á meðan sólin skein í gær. Þá hafði ég nægan frítíma til að skoða mig um (aftur, ég hef komið hingað áður) og taka myndir. Ég kom að vísu á einn nýjan stað sem ég sá ekki síðast þegar ég var hér. Einhvers konar lystigarður. Þar var mikið af fallegum blómum – ég tók að sjálfsögðu myndir af þeim. Ég sleppti því að taka myndir af manngerða stöðuvatninu sem var tómt, eða manngerðu tjörninni með styttunni af konunni baða sig – sem var líka tóm. Þessi lystigarður er eflaust fallegri á sumrin, þá sigla Búkarestbúar líklega á litlum árabátum og hvísla eitthvað rómantískt hvert við annað úti á miðju manngerðu vatninu.

En ekki núna. Nú voru nánast allir bekkirnir nýmálaðir svo ekki var hægt að sitja á þeim og leið mín lá þá heldur fram hjá fjölmörgum minnisvörðum um erfiða fortíð borgarinnar. Borgin er falleg og minnir um margt á mína uppáhalds París, en þrátt fyrir það má glögglega sjá að hér hefur gengið á ýmsu.

Gærdagurinn var einstaklega fallegur og göngutúrinn varð til þess að ég upplifði enga sérstaka þrá til að fara mjög langt frá hótelinu í dag. Þegar sólin fór að skína um fimmleytið kviknaði þó á Íslendingnum í mér sem hugsaði með sér að ég yrði nú að nýta veðrið fyrst það væri orðið svo gott. Ég fór og gekk örfáum skrefum inn í gamla bæinn. Þar kom ég við í gamalli kirkju sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Ég hafði ekki orð á því við nokkurn mann að mér fannst byggingarstíll hennar minna á moskur, það voru greinilega einhver austræn áhrif. Mér finnst alltaf áhugavert að setjast inn í trúarbyggingar og hlusta á þögnina í þeim. Hún er alltaf ótrúlega þrúgandi. Áþreifanleg næstum. Stuttu eftir að ég settist niður heyrði ég að barið var á timbur, líkt og með hamri, fyrir utan. Mjög ákveðið, nokkrum sinnum í röð. Svo aftur, og aftur.

Ég hef alltaf verið mjög þakklát fyrir að vera nokkuð fljót að hugsa, en heilinn minn hvíslaði að mér að þarna væri eflaust verið að kalla til bæna – því klukkan var rétt að ganga sex. Ég skottaðist því á fætur og beint út – og sá þar einmitt aldraða konu, hokna af reynslu, á gangi umhverfis kirkjuna með þar til gerða spýtu sem hún barði í taktfast með annarri minni spýtu. Eflaust einhver siður í stað kirkjuklukka. Þetta fannst mér áhugavert. Því miður varð þetta ákall til bæna þó ekki til þess að ég sæti heila bænastund í þessari litlu kapellu.

Að kirkjuheimsókninni lokinni kom ég við í fjórum ólíkum bókabúðum. Í þeirri fyrstu, sem er einstaklega falleg, keypti ég mér nælu og smá handavinnu. Engar bækur. Þegar ég gekk fram á næstu búð mundi ég eftir því að Auðunn vinur minn hefur verið að safna bókum á erlendum tungumálum fyrir ÍSAT (íslenska sem annað tungumál) nemendurna sína. Ég henti mér inn og ákvað að vinda mér beint að barnabókunum.

Þessi bókabúð var áhugaverð. Að utan leit hún út fyrir að vera fyrir fáa útvalda. Útlitið var líkt og um skemmtistað væri að ræða – daginn áður hafði bersýnilega verið teiti þar innandyra því ég mundi eftir að hafa gengið þar hjá og sá fólk bíða í röð til að komast inn. Nú var engin röð og ekkert band sem kom í veg fyrir að hver sem er gæti gengið inn. Svo ég hleypti sjálfri mér inn og þar var fyrir ein kona. Á annarri hæð. Í ótrúlega stórri, nýtískulegri og flottri bókabúð. Ég fann barnabók en þar sem færni mín í rúmensku er takmörkuð vildi ég vera viss um að ég væri með bók fyrir réttan aldurshóp og spurði því afgreiðslumennina hvort þessi bók hentaði ekki örugglega. Þeir voru virkilega áhugalausir þegar ég sagði þeim frá frábæra kennaranum á Íslandi sem vildi vera viss um að rúmensk börn í skólanum hans gætu lesið á eigin móðurmáli. Þeir eiginlega ranghvolfdu augunum. Kannski yfir því að ég skildi vera þarna inni yfirhöfuð.

Allir fimm starfsmennirnir voru í svörtum bolum. Þeir virkuðu allir álíka óáhugasamir um búðina. Einn þeirra var úti að reykja þegar ég fór út, ásamt hópi jakkafataklæddra manna sem litu frekar út fyrir að eiga heima í þáttunum Exit, heldur en í rúmenskri bókabúð. Ég tók stefnuna í átt að hótelinu og fann á leiðinni tvær aðrar, mun minni bókabúðir. Ég rétt rak nefið í gættina á annarri en staldraði heldur lengur við í hinni, þar sem hún var einungis með alþjóðlegum bókum og þýðingum. Þar langaði mig að finna eitthvað sniðugt að kaupa en ákvað að láta það nægja að skoða í þetta skiptið.

Nú ætla ég að slá botn í þessa frásögn. Kannski skrifa ég einhvern tímann seinna um það þegar ég pantaði mér McDonalds af einhverju matarsöluforriti (það heitir Glovo) og fékk bara helminginn af pöntuninni – og lærði í leiðinni að hér í borg er hægt að fá heimsend hjálpartæki ástarlífsins úr sama forriti og mat frá öllum helstu veitingastöðum borgarinnar. Ætli ég þurfi þess nokkuð, öll saga þessa dags er nú uppskrifuð og ekkert því í stöðunni annað en að fara að sofa.