Ómarsdóttir
Mynd © Jón Óskar Ísleifsson
Þegar pabbi flutti til Íslands árið 1965 hét hann Ahmed Hafez Awad. Þegar hann lést árið 2015 hét hann líka Ahmed Hafez Awad. Þessi fullyrðing væri ekkert svo áhugaverð nema þar sem hún stenst einungis vegna ákveðinnar hringrásar sem átti sér stað.
Þegar pabbi fæddist í Kaíró árið 1942 var honum gefið fyrsta nafnið Ahmed (sá sem fólk lofar). Í Egyptalandi heitir fólk líka eftir feðrum sínum, eins og hér, þó að alla jafna bætist hvorki viðbótin -sonur né -dóttir aftan við nöfnin. Það tíðkast reyndar í sumum löndum, samanber forskeytin Ibn og Bint sem þýða sonur og dóttir.
Samkvæmt egypskum nafnavenjum ætti ég semsagt að heita Miriam Ahmed Awad. Miriam dóttir Ahmed Awad. Millinafnið mitt væri þá fyrsta nafnið hans.
Pabbi hefði því átt að heita Ahmed Salah Awad, þar sem Salah er fyrsta nafn pabba hans, afa míns. Það sem merkilegra var þó, að strax á fyrstu árunum í lífi pabba var nafnið hans orðið óvenjulegt. Fjölskyldan, eða afi upp á sitt einsdæmi kannski, breytti út af venjulegum nafnahefðum til að geta nefnt frumburðinn alfarið eftir pabba hans afa, byltingarsinnanum og blaðamanninum Ahmed Hafez Awad. Úr því varð að Ahmed Hafez Awad sem endaði síðar á Íslandi og varð pabbi minn, hét upprunalega nafni sem vakti smá rugling. Stundum komu skilríki honum í koll, þar sem þau gáfu til kynna að hann væri sonur einhvers Hafez Awad en ekki Salah Awad - sem gat skipt máli í Egyptalandi.
Árið 1969 fékk pabbi síðan íslenskan ríkisborgararétt og þurfti því að taka upp íslenskt nafn, því þannig voru lögin. Hann fékk ekki að halda einni einustu örðu af sínu nafni, hvorki fornafni, millinafni eða ættarnafni. Hann sagði mér að hann hefði fengið lista af nöfnum hjá Útlendingaeftirlitinu sem hann þurfti að fara í gegnum og velja af.
Hann valdi að lokum tvö sem hann kannaðist við. Ómar var eina arabíska nafnið á listanum, svo Ómar var það. Aron var svo nafn sem hann kannaðist við úr fjölþjóðlegum vinahópi barnæskunnar í Kaíró, þar sem vinir voru innlendir, erlendir, kristnir, múslimar og gyðingar. „Einhver strákur sem var gyðingur hét Aron og ég kannaðist því við nafnið“, sagði hann mér eitt sinn. Úr því varð Ómar Aronsson.
Ahmed Hafez Awad hélt áfram að vera til í Egyptalandi, en öll íslensku skilríkin, vegabréf og annað báru nafn hins nýja manns, íslenska ríkisborgarans Ómars Aronssonar. Næstum því eins og efni í njósnaskáldsögu. Þetta átti líka eftir að koma honum í vandræði, hann var ítrekað stöðvaður á flugvellinum í Kaíró og yfirheyrður. Hvers vegna ertu með skilríki á einu nafni frá Íslandi, en á öðru nafni héðan? Það fór alveg eftir skapi og stuði starfsmanna landamæraeftirlitsins hvort skilningur væri á íslenskum nafnavenjum eða hvort litið væri á pabba sem mögulegan glæpon, sem breytt hefði um nafn í annarlegum tilgangi.
Á Íslandi eignaðist Ómar Aronsson dótturina Ásrúnu Lailu, svo soninn Ómar sem var skírður í höfuðið á pabba sínum (sem hét samt ekkert Ómar…) og kynnti sig fyrir fólki sem Ómar. Ég man ekki hvenær lögin breyttust á ný en þegar ég fæddist þá hafði hann á einhverjum tímapunkti greinilega fengið leyfi til að breyta nafninu sínu aðeins í átt að því upprunalega og hét þá Ómar Hafez Awad. Ég fæddist og var skírð Miriam Petra Ómarsdóttir. Þannig ólst ég upp við að nafnið mitt væri. Hugsaði varla út í það sem barn að ég gæti gert eitthvað tilkall í ættarnafnið Awad.
Seinnameir eignaðist Ómar Hafez Awad líka barnabörn sem kölluðu hann afa Ómar en það var ekki fyrr en að ég sjálf var orðin stálpuð að lögin breyttust aftur og Ómar fékk að heita Ahmed. Ahmed Hafez Awad, í höfuðið á afa sínum, manninum sem pabbi hans vildi heiðra með því að nefna frumburðinn sinn eftir. Eins og við þekkjum að tíðkast oft hér. Hringrásin lokast.
Þá allt í einu fór ég að venjast því að kynna pabba minn sem Ahmed. Leiðrétta í sífellu fólk sem sagði Ak-med eða A-med. H-ið er ekki hljóðlaust og það er ekki kokhljóð. Það er bara h. Þetta fór í taugarnar á mér - og honum - svo hann notaði oft Ómars nafnið áfram. Yngstu barnabörnin lærðu þó að þekkja hann sem afa Ahmed sem er kannski ruglingslegt í frændsystkinahópi, þegar um er að ræða sama manninn og afa Ómar.
Á einhverjum tímapunkti fengum við svo jólakort stílað á Ómar Aronsson, eftir að hann var orðinn Ahmed aftur. Ég sagði honum að við hefðum fengið jólakort „fyrir einhvern annan Ómar“ og sýndi honum það. „Já, nei, þetta er til mín.“ Ég hafði semsagt lifað nokkuð lengi án þess að hafa hugmynd um að pabbi minn hefði heitið Ómar Aronsson áður en hann varð Ómar Hafez Awad og aftur Ahmed Hafez Awad.
Ég tók upp á því í kringum 18 ára aldur að taka upp nafnið Awad. Það var einfalt mál, ég færði rök fyrir því gagnvart Þjóðskrá að pabbi minn bæri nafnið og ég ætti því rétt á því líka. Það gerðist og ég varð Miriam Petra Ómarsdóttir Awad.
Það var þó ekki fyrr en 12 árum síðar að ég fór alvarlega að spá í að sleppa því að vera Ómarsdóttir. Vera bara Miriam Petra Awad. Að mörgu leyti finnst mér Miriam Petra Awad vera með skemmtilegan hljóm, svona eins og það sem ég gæti kallað mig ef ég væri fræg listakona - gagnvart umheiminum. Ég tók Ómarsdóttur nýlega út af Facebook og undirskriftinni í vinnupóstinum mínum, til þess að sjá hvernig mér liði án þess.
Á vissan hátt finnst mér sturlað að eiginnafnið hans pabba míns hafi verið tekið af honum. Ég verð oft reið við tilhugsunina. Ég velti þessu sjaldan fyrir mér þegar ég var yngri en eftir meistararannsókn þar sem einn helsti vinkillinn var áhrif fordóma á sjálfsmyndir fólks, fór ég að spá meira í þessu. Eiginnöfn skipta flest okkar líka miklu máli og eru stór hluti af sjálfsímyndinni - fæst okkar myndum við taka það í mál að gefa þau upp á bátinn. En nei, mannanafnareglur á eyju í Norður-Atlantshafi vógu þyngra en sjálfsmynd erlends einstaklings. Samræmist ekki íslenskum málvenjum.
Ég velti því líka fyrir mér hvort ég vildi kannski frekar vera Ahmedsdóttir Awad, því það væri nú tæknilega séð réttara. Kæmist kannski framar í stafrófsröðina þegar hún færi eftir eftirnöfnum. Nei, ég tengdi samt ekki við það. Pabbi hét Ómar í mínum huga alla barnæskuna (að einhverju leyti hét hann líka bara pabbi reyndar…).
Eftir að hafa í nokkrar vikur horft á nafnið Miriam Petra Awad fattaði að mér fannst eitthvað vanta. Ómarsdóttir var mun sterkari hluti af mér en ég hélt. Það er jú tæknilega séð það íslenskasta við nafnið mitt og íslensk er ég líka - þó nöfn séu alls enginn mælikvarði á þjóðerni. Nafninu fylgir líka þessi áhugaverða saga sem mér finnst gott að segja fólki. Áminning á það hvernig svona lög og reglur hafa áhrif á persónur og einstaklinga. Hvað það er í raun sturlað að taka nöfn af fólki. Plús, ég feta þá í fótspor föður míns og ber föðurnafn sem er ekki raunverulegt nafn föður - og loka þar með hringrásinni eiginlega aftur, með einni auka slaufu.