.

View Original

París eftir tvö ár

Eftir allan þennan tíma

og heimsfaraldur, komst ég að því að París hafði ekkert breyst.

Við upphaf kórónaveirufaraldursins hugsaði ég oft hvað ég væri fegin að vera hér heima á Íslandi. Það var allt einhvern veginn einfaldara - og öruggara, hér á hjara veraldar. Ég hugsaði með ákveðnum hrylling til sjálfrar mín einu ári fyrr, í lítilli íbúðarholu á jarðhæð í París - með engu útsýni og gluggum sem vísuðu beint út á götu. Þar voru gluggahlerarnir nánast alltaf lokaðir, enda yfirleitt hópur af fólki úti að reykja beint fyrir utan gluggann. Og ég fyrir innan eins og í fiskabúri. Ég var því guðslifandi fegin að búa á Laugarnesveginum en ekki Rue Pierre Budin þegar covid byrjaði.

Eftir því sem tíminn leið, því oftar hugsaði ég um að snúa til baka til Parísar. Mér sýndist allt vera að lifna við aftur og mig langaði því ótrúlega að flytja út. Ég hugsa í raun reglulega um það - mun meira en áður en ég bjó í París - hvað mér þætti dásamlegt að búa í fallegri, huggulegri (parketlagðri) íbúð í París. Með frönskum gluggum, litlum svölum og útsýni yfir á grá húsþök.

Ég reyndi að leyna gleðinni þegar ég frétti að ætti að senda mig á ráðstefnu til Belgíu nú í lok nóvember. Eftir að hafa ráðfært mig við samstarfsfólk áttaði ég mig á því að eina leiðin til að komast alla leið á áfangastað væri að fljúga til höfuðborgar Frakklands eða Hollands og taka þaðan lest. Ótrúlegt en satt eru nánast engin bein flug frá Brussel til Keflavíkur. Ég held að það hafi eitthvað með túristana að gera, frekar en einhverjar tengingar við Brussel sem þá pólitísku miðstöð sem hún er gagnvart ýmsum stofnunum.

Það þarf eflaust ekkert að útskýra það nánar hvers vegna ég valdi að fljúga til Parísar og taka þaðan lest. Ég flýtti brottförinni út og hafði í hyggju að seinka heimferðinni líka eftir ráðstefnuna, og ná þannig nokkrum dögum fyrir og eftir ferðina í París. Áður en ég skrifa um París ætla ég að segja frá því hvernig þetta endaði þó allt saman. Á laugardagskvöldinu breytti ég miðanum mínum og ákvað að koma heim á sunnudeginum.

Ástæðan var omicron afbrigði veirunnar og virkilega slæmt ástand í Belgíu. Eftir að hafa farið í PCR próf í París og lesið ógrinni af frönskumælandi fréttum um aflýsingar á lestarferðum innan Belgíu, útbreiðslu faraldursins og ferðabönn til og frá ákveðnum löndum ákvað ég að fara frekar heim en áfram til Belgíu.

Aumingja Iida vinkona frá Finnlandi hafði komið að hitta mig alla leið frá Bruxelles, ég ætlaði samferða henni til baka og gista hjá henni - en hún þurfti að fara aftur heim alein. Ég held - og vona - að hún fyrirgefi mér þetta. Stressið var alveg að fara með mig, óvissan um að taka ákvörðunina sjálf, að ráðstefnan hafi alltaf verið á dagskrá þrátt fyrir faraldurinn (hefði ég þá átt að fara?), hvað myndi fólk segja?

Og síðast en ekki síst verð ég að nefna að elsku bróðir minn var á spítala á þessum tíma vegna heilablæðingar, og hausinn minn var ekki alveg eins og hann á að sér að vera.

Útsýnið úr svefnherberginu á 1 Rue Caplat

En París hafði ekkert breyst

Það var ákveðin huggun að stíga út úr lestinni á Gare du Nord og sjá að París hafði ekkert breyst - sömu týpurnar voru á ferli, nema nú með grímur. Þegar ég lenti á Charles de Gaulle flugvelli var ég að vísu smá týnd, þar sem flugstöðvarbyggingin sem ég þekkti eins og lófann á mér er að fá andlitslyftingu og við lentum í annarri sem ég kannaðist ekki við. Á meðan ég beið eftir töskunni prófaði ég stórmerkilega tæknilega nýjung og pantaði mér lestarmiða í gegnum símann minn.

Ég var nefnilega svo sniðug að henda ekki metro kortinu mínu. Mér finnst reyndar nokkuð fyndið að lesa gamla færslu um metró kortin í París þar sem ég hafði nýlega keypt mér svokallað túristakort og svór fyrir það að hinkra eftir svona persónubundnu metro korti fyrir fólk búsett í París. Til að gera langa sögu stutta þá fékk ég svoleiðis kort einungis nokkrum vikum eftir þessa heimspekilegu færslu en gerði þann heimskulega hlut að nota sömu hræðilegu passamynd, sem ég sit nú uppi með.

Vopnuð lestarkortinu leið mér eins og mér væru allir vegir færir. Ég var eins og innlend, labbaði beint að kortaskannanum vopnuð inneigninni minni og brunaði niður í næstu lest til Parísar.

Mér til mikillar gleði virkaði Vodafone betur en Nova gerði forðum og ég upplifði enga hnökra á tengingu minni við umheiminn.

Við komuna á Gare du Nord gekk ég svo rakleiðis upp að rúllustiganum við útganginn hjá Rue du Mauberge og spítalanum, eins og ég hafði alltaf gert, og labbaði heim til mín.

Ég skrifaði miklu minna um íbúðina á 1 Rue Caplat en ég hef vafalaust talað um hana. Nema ég finni týnda færslu þá ætla ég að setja það á gátlistann minn.

Íbúðin hafði ekkert breyst, nánast ekkert. Í henni voru meira að segja mublur sem ég hafði keypt og skilið eftir. Seldi meira að segja næsta starfsnema sem tók við af mér fataslánna mína og spegilinn á eitthvað slikk. Báðir hlutir voru enn þarna og ég hefði í rauninni getað eignað mér þá aftur ef ég hefði viljað. Mér líður núna eins og ég eigi eitthvað í þessari íbúð, fyrst ég gat bara snúið til baka og hún var nánast tóm. En það var enginn búinn að gefa mér íbúðina, heppnin hafði bara verið með mér. Mér datt í hug rétt fyrir brottför að hafa samband við Herra Amamra, gamla leigusalann minn, til að athuga hvort hann ætti lausa íbúð fyrir mig að leigja. Hann á nokkrar litlar íbúðir í París sem hann leigir til starfsnema - yfirleitt hjá þýska sendiráðinu. Ég var einhver undantekning, hann tók smá séns með mig, Íslendinginn. Þegar ég flutti heim var hann svo ánægður með hvað ég hafði farið vel með íbúðina - og gert hana heimilislega á meðan ég bjó í henni - að hann sagði mér að hika ekki við að athuga hvort hann hefði lausa íbúð ef ég kæmi til baka.

Úr því varð að ég var allt í einu mætt aftur heim til mín. Eins og ekkert hefði gerst. Enginn heimsfaraldur, ekkert útgöngubann. París fyrir utan gluggann var alveg eins. Hljóðið í lestinni á teinunum uppi á Barbès var alveg eins. Hljóðið frá götunni, hróp og köll og sírenuvæl. Alveg eins.

Það var ákveðin huggun í því. Mér hætti í smá stund að líða eins og ég væri að missa af einhverju. París var bara París, eins og hún hafði alltaf verið - og yrði sennilega áfram hvort sem ég væri í henni eða ekki.

Ég fór svo út og fékk mér göngutúr. Gekk sömu göturnar, stoppaði í sömu búðunum, keypti mér pain au chocolat og espresso í sæta litla bakaríinu við fætur Sacré Cœur. Hversu dásamlegt var þetta?

Ég var svo ótrúlega þakklát að París væri enn bara París. Eins og einhver klettur í rugluðum heimi takmarkana og vírusa, þá hafði París ekkert breyst af ráði.