Minningar af Túngötunni
Á morgun hefst dimbilvikan. Það styttist sumsé í páska. Ég skal viðurkenna að dimbilvika er hugtak sem hefur ekki borið á góma á mínu heimili í langan tíma, en ég var minnt á það af vinkonu á samfélagsmiðlum í dag. Veit ekki hvers vegna mér datt í hug að skrifa um það, en ég settist við tölvuna með annað í huga.
Ég sit í þriggja sæta sófanum okkar Svavars. Þessum appelsínugula. Við eigum þrjá sófa og einn stól. Sófarnir eru sett sem við fengum að gjöf frá afa hans. Ég veit ekki hvað þeir eru gamlir en ég myndi ekki skipta þeim út fyrir neitt nýtt stofustáss. Dottaði á sófanum áðan, lá með hundana sitthvoru megin við mig og var við það að sofna. Ég hugsa að það hafi verið stöðugur takturinn í uppþvottavélinni (hljómar eins og eitthvað sé að slást til þar inni), hafi í undirmeðvitundinni minnt á ákveðið tikk-takk í klukku á Túngötunni.
Þessi klukka var í eldhúsinu og í minningunni var það eina hljóðið sem heyrðist þegar allir voru farnir að sofa. Maður vaknaði kannski um miðja nótt, miðja bjarta sumarnótt, og fór fram, logn á firðinum og dögg á blómunum úti í garði. Allt svo friðsælt og klukkan taldi tímann líða.
Mér leið allavega allt í einu eins og ég væri á Túngötunni, það var bjart úti, en svona, þessi birta um miðja nótt á sumrin. Svona nætur þar sem, jafnvel þó það hefði verið skýjað og dimmt yfir daginn, það birti til á nóttunni. Tilfinning sem ég get vafalaust fullyrt að enginn nema þeir sem búa nálægt heimskautapólunum þekkja.
Vellíðunartilfinningin sem fylgir minningum af Túngötunni umvefur mig eins og hlýtt knús. Kannski áttu amma og afi heitin bara leið hér um á Laugarnesveginn og skildu eftir sig smá hlýju - eða kannski var það ég sem fór í örstutta heimsókn til þeirra á Túngötuna. Í mínum minningum var það þannig að það var kannski staulast eitthvað frameftir, fólk var að spila, leggja kapal, fá sér smá sætabrauð og spjalla við eldhúsborðið fyrir svefninn. Þá var oft verið að rifja upp gamla tíma. Og alltaf malaði útvarpið smá Rás 1 í bakgrunni.
Allar þessar minningar helltust yfir mig eins og sjórinn á Kúbu hérna um árið. Hlýjar og bjartar og kaffærðu mig í smá stund. Kaffærðu mig reyndar bara í ást, get ekki yfir neinu kvartað. En, ég mundi þá eftir nokkrum ljóðum sem ég samdi á þessum tíma. Þessum tíma semsagt þegar það var enn hægt að heimsækja afa og ömmu, svo bara ömmu, á Túngötu 23.
Þau koma hér:
Veðurfréttirnar
útvarpið malar.
í gömlum sófa í gömlum kofa
sit ég og vil ekki sofa.
eins og tíminn hafi staðnað
á þessum stað.
fjallshlíðin gróin
ég horfi á fjörðinn
út um gluggann
og duggan siglir inn.
vaggar hún létt
eins og ég vagga í hugsunum mínum
þennan sunnudagsmorgunn.
og það toppar ekki neitt
veðurfréttirnar
á Rás eitt.
Austurland að Glettingi, suðsuðaustan fjórir, súld á síðustu klukkustund. sjóveðurspá, langt vestur af Hvarfi er lægð sem hreyfist hægt í austur. hver elskar þetta ekki?
Yndislegt
Bjargið bláa, bjarta, háa,
blítt þú tekur móti mér,
lyngið lága, lambið smáa.
Ljúfar myndir sveitin sér.
Í bjartan grænan dal, undir háum hamrasal
hlýir geislar skína; um Vestfirðina mína.
Túngata 23
úti situr rökkrið
og horfir inn.
ég sit við borðið og borða kóngabrauð
og drekk mjólk úr glasi,
með sprungu sem er eins og draugur;
draugaglasið.
það er uppáhalds glasið mitt -
fyrir utan koparglösin.
mjólkin er svo köld í þeim.
úti situr rökkrið
og horfir inn.
kyrrðin, ilmurinn og hlýjan halda veislu í garðinum
sem er skreyttur öllum mögulegum blómum
og garðálfum - sem voru gjafir.
úti situr rökkrið
og horfir inn.
ég sit á gömlum stól,
hlusta á útvarpið
og hljóðið í klukkunni.
tikk-takk-tikk-takk
Nú verða lesnar veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands.
tikk-takk
úti situr rökkrið
og öfundar mig.
Fjallafaðmur
Í faðmi dimmra fjalla enn ég er,
sjórinn er svo spegilsléttur hér,
fegurri en málverk sýnin er
og enginn tekur þetta burt frá mér.
Því sólin speglar sjávarflötinn björt
og tunglið lýsir hlíðina í kvöld
þó að nóttin geti verið býsna svört
get ég ávallt treyst á stjörnufjöld.
Í faðmi bjartra fjalla enn ég er,
í kotinu er best að kúra sér
því ástin hún er allsráðandi hér
og gleðin alltaf brosir móti mér.
samið í skrifstofuherberginu hans afa, Túngötu 23, Tálknafirði að kvöldi hins 5. september 2009. - Heimsóknir til ömmu og afa eru alltaf jafn góðar og minningarnar ekki síðri
Allar myndir í færslunni voru teknar á 35 mm litafilmu, á Vivitar myndavél, sumarið 2012