.

View Original

Plastögn í súrum sjó

Ég ligg uppi í rúmi í París. Smá þung í þönkum, hlusta á bílaflaut fyrir utan gluggann og velti því fyrir mér hvort það hafi verið góð ákvörðun að éta aðeins of mikið pasta í kvöldmat og fá sér svo gin og tónik. Bara lítinn sko. Þetta var í samkeppni við að skjótast í ræktina. Einhvern veginn er það svakalegt mál að velja á milli tveggja lítilla hluta, veit ekki hvort það sé kynslóðin mín eða bara meðvirknin í sjálfri mér, sem veldur því að sama hvaða ákvarðanir ég tek, þá efast ég einhvern veginn alltaf um þær.

Maður getur aldrei unnið. Alvöru þúsaldar FOMO. Fear of missing out. Ekki nóg með að þessi kynslóð sé að reyna að lifa eftir stöðlum foreldra sinna, sem öll eiga hús, sumarbústað, gólfsett eða íbúð á Spáni, þá virðist hún tæpast færast nær því markmiði. Maður er kannski bara ekki að leggja nógu hart að sér? Kannski ná því nokkrar útvaldar sálir, en flest okkar festumst í einhverri hringiðu rándýrra skólagjalda, húsnæðislána eða stórra drauma um að búa erlendis. Pressan að eignast börn er allsráðandi, eins og hún hefur alltaf verið, stuðla að endurnýjun kynslóða og að lifa hamingjusömu business lífi með húsbíl og íbúð. Og hund og barn og hvíta girðingu í garðinum.

Það er kannski ekkert galið að stefna að þessum markmiðum. Fyrri kynslóðir hafa gert það, síðan við hættum að hafa það eitt að markmiði að lifa veturinn af, þ.e.a.s.

Tilvistarkreppa dagsins í dag er öðruvísi en tilvistarkreppa síðustu 50 ára.

Ég benti á það í einhverju veikulegu tísti um daginn að árið 2060 renni ökuskírteini mitt út. Ég stóð mig áður að því að hlæja að því að ég yrði með sömu ógeðslegu 19 ára gelgju-myndina þegar ég yrði 70 ára (svo framarlega sem ég týni skírteininu ekki). Nú hlæ ég að því að 10 árum áður en ökuskírteinið mitt rennur út verða líklegast engir jöklar eftir á Íslandi. Landi íss og snævar. Fire and ice.

Nei, ég hlæ ekki, ég græt innra með mér og ég fæ kvíða. Kvíða yfir einhverju svo stóru að ég hef sjálf ekki stjórn á því. Hvernig á ég að tækla kvíðann ef hann er útaf einhverju raunverulegu sem ég hef enga stjórn á. Framtíð mín er bókstaflega í húfi.

Ég reyni að flokka og kaupa minna plast og ég keyri ekki bíl og ég.. og ég.. hvað? Deili fréttum um hnignun lífríkisins, súrnun sjávar og mæti í vinnuna, vonandi að það sem ég skil eftir mig - svona almennt - komi til með að færa heiminn að einhverju leyti frá því gjörsamlega drepast af manna völdum.

Ég horfi á David Attenborough þætti með tárin í augunum, sveltandi ísbirnir, rostungar sem hrynja niður kletta og mörgæsir sem missa unga. Þetta var bara einn þáttur og hann var nóg. Ég horfði einu sinni á náttúrulífsþætti til að fræðast og hafa gaman. Nú fræðist ég og efast svo um allt sem ég geri. Ég meina, hvers vegna geri ég þetta allt, fyrst það er allt að fara til fjandans hvort sem er?

Mun einhver verða eftir hér til að muna eftir mér, Miriam, sem ætlaði sér ekki að missa trúnna á betri og réttlátari heimi? Ég er bara plastögn í súrum sjó, lítil eining í stóru vandamáli - og hvað á ég að gera í því?

(Ef einhver er með önnur svör en að vera bara bjartsýnn þá má sá hinn sami endilega senda mér skilaboð).