.

View Original

Hjólatúr um París

Nú er löngu kominn tími til að ég haldi áfram að skrifa um lífið í París. Ég ætla líka að afnema lykilorðið á heimasíðuna og bara að leyfa henni að vera eins og hún er, enda komin með nægar færslur til að hún sé ekki hálf tóm.

Svavar lagði af stað heim í morgun eftir góða helgi í París. Við skelltum okkur í hjólatúr sem ég get eindregið mælt með. Farið var á rafmagnshjólum um ýmsar smágötur og sá ég aðra hlið á París en ég á að venjast – smakkaði líka besta (og þykkasta) heita kakó sem ég hef fengið.

Um daginn fór ég í ræktina og fékk armband, mér að algjörum óvörum, sem maður skannar til að komast inn. Ég þarf semsagt ekki að ganga lengur um með bréfsnifsið sem ég skrifaði undir, sem tilgreinir hversu langur samningurinn minn er. Það hefur gengið ágætlega hingað til en hefði sökkað að týna því og tapa aðgenginu. Svo höfðu þau greinilega klúðrað samningstímabilinu í tölvukerfinu og á ég víst inni líkamsræktarkort út ágúst frekar en fram í júlí… „Þetta gerist aldrei, að þau bæti óvart mánuði við – frekar væri það öfugt! En þú heppin“ – sagði afgreiðslustelpan þegar hún tók ógeðslega mynd af mér til að tengja við armbandið. Mjög heppin, ég fer heim 1. júlí og næ ekkert að nýta mér þessa heppni – en hefði verið algjör snilld. Alheimurinn að vera góður og maður er bara þakklátur fyrir það.

Svavar lenti í því í gærkvöldi að vera stoppaður í metróinu og beðinn um að sýna fram á að hann hafi borgað fargjaldið sitt. Semsagt með því að láta skanna litla bréfsnifsið sem lestarmiðinn er. Það gekk allt vel enda ég búin að hamra á því við hann og aðra að henda þessum miðum alls ekki fyrr en komið er upp úr metróinu. Ekki nóg að vera bara kominn út úr lestinni sjálfri, því verðirnir leynast á leiðinni út. Allir, hafa þetta í huga!

Á veitingastaðnum Le Chalet

Í gær fórum við einnig í fondú í hádegismat með Shadiu og Nadine, frænkum mínum frá Cairo. Þær eru miklar smekksmanneskjur og völdu fyrir okkur skemmtilegan veitingastað í vesturhluta Parísar sem var greinilega mjög vinsæll. Þar átum við yfir okkur af fondú og raclette en það má segja að þetta hafi verið fyrsta alvöru slíka máltíðin sem ég og Svavar prófum. Okkur til mikillar gleði var maturinn geggjaður - og félagsskapurinn auðvitað frábær, en þær mæðgur eru hressar og kátar.

Það er einhver ógurleg mánudagsþreyta í mér í dag, veðrið í dag er mjög íslenskt. Rigning og rok. Samt svona franskt rok. Eiginlega bara gola. Við áttum bókað í þessa hjólaferð þarna í gær og á sama tíma var gul viðvörun á veðursíðunni sem ég nota vanalega. Velti fyrir mér skilyrðunum fyrir gulum viðvörunum, ætli það fari eftir löndum hvað „gul“ viðvörun á vindi, þýði mikill vindur. Tók amk ekki eftir neinum vindi á meðan við hjóluðum um París, nema rétt í lokin þegar við vorum við Signu og það var nú varla í frásögur færandi.

Hjólaferðin var annars alveg frábær. Fyrirtækið heitir Paris Charms and Secrets. Við hittumst á Place Vendôme og heyrðum um listlilegan sigur Napóleon í bardaganum í Austerlitz. Ég er engin heraðdáandi en fannst áhugavert hvernig Napóleon sigraði óvinaherinn með því að sprengja upp frosið stöðuvatn sem þeir steyptust á endanum ofan í. Svo tók hann allar fallbyssurnar þeirra og fallbyssukúlurnar og bræddi saman í svakalega koparstyttu sem stendur nú á Place Vendôme. Þaðan fórum við svo í Place Royal og lærðum um svallið og djammið hjá Filippusi bróður Loðvíks XIV. Hann var víst aðalmaðurinn. Fengum að heyra söguna að því hvernig partýmunkurinn Dom Perignon er talinn hafa uppgötvað kampavín – en tvennum sögum fer þó um hvort hann hafi uppgötvað bubblurnar. En hann mætti víst með vínið í partý til Filippusar og gaf smakk. Og hér erum við í dag, allir elska kampavín.

Við héldum svo áfram að Louvre og fórum þaðan á ágætishjólasprett upp í latneska hverfi og skoðuðum gamalt rómverskt hringleikahús, Arènes de Lucerne. Að því loknu kíktum við í litla kirkju, inn í klaustri, sem sagan segir að hafi ekki verið skemmd í frönsku byltingunni vegna þess að nunna ein hafi hellt baráttuglöðu byltingarsinnana fulla svo þeir gleymdu áætlunum sínum um að stela öllu úr kirkjunni. Eftir það kíktum við í kakóið sem ég talaði um áðan. Það ásamt elsta veitingstað Parísar er í götunni Cour du Commerce Saint-André – sem er göngugata. Súkkulaðistaðurinn heitir Un Dimance à Paris og veitingastaðurinn heitir Le Procope. Rétt hjá lestarstöðinni Odéon. Að lokum skoðuðum við Saint-Sulpice kirkjuna en í henni er að finna verk eftir Delacroix sem eru hlaðin miklum leyndum merkingum í anda Da Vinci Code – enda tengjast sögur um templarariddarana kirkjunni mjög sem og verkum Delacroix. Áhugaverður og skemmtilegur hjólatúr sem við kunnum bæði að meta. Rafhjólin gera þetta líka mjög auðvelt verkefni, jafnvel þótt stundum væri farið upp brekkur.

Annars er lítið annað að frétta en að ég er að reyna að finna hvaða franska sætabrauð er líkast vatnsdeigi svo ég geti farið og keypt mér eitthvað í tilefni bolludagsins. Til greina koma öll sætabrauð sem gerð eru úr pâté à choux – t.d. éclair, profiteroles og einhver nokkur önnur. Éclair er oft kallað Langi Jón á íslensku fyrir þá sem ekki þekkja til. Ég veit ekki hvað verður fyrir valinu að lokum.