.

View Original

Minningarplatti

Á síðustu dögum hefur verið mikil umræða um gyðingahatur hér í Frakklandi. Óværan sú hefur skotið upp kollinum á mun meira áberandi máta en lengi, með ýmsum skemmdarverkum og hatursorðræðu. Í gær voru samstöðumótmæli á Place de la République (og á fleiri stöðum í Frakklandi), gegn and-semitisma en einnig fordómum almennt.

Mig langaði aðeins að skrifa um þetta af því að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á atburðum seinni heimsstyrjaldarinnar, með það að markmiði að leyfa slíkum atburðum aldrei að endurtaka sig. Ég lá oft andvaka á nóttinni og hugsaði um þá sem voru rifnir út af heimilum sínum eða vinnustöðum og sendir út í óvissu og dauða, fyrir það eitt að fæðast inn í ákveðinn trúarhóp.

Þegar ég var yngri þá þekkti ég mjög lítið til trúarbragðanna sjálfra og vissi ekki mikið um einhvern mun þarna á milli, enda lærði ég ung frá pabba að fólk gat trúað á Guð á mismunandi máta og það skipti í raun ekki máli hver leið manns til hans væri (og í hvaða formi hann svo sem væri).

Ekki kynntist ég Gyðingum á Íslandi en ég heyrði sögur af fjöltrúa og fjölþjóðlegri Cairo uppvaxtarára pabba, sem varð til þess að þegar hann neyddist til að taka upp eitthvað “íslenskt” eftirnafn þegar hann flutti til Íslands valdi hann Aronsson. Hann fékk nafnalista sem hann átti að velja úr, hafandi verið í bekk með strák sem hét Aaron, þá valdi hann það nafn sem eftirnafn og hét hann samkvæmt lögum Ómar Aronsson fyrstu árin á Íslandi. (Sem er brenglað í sjálfu sér).

Uppvöxtur minn kenndi mér að gera ekki greinarmun á fólki vegna þess sem það trúir innra með sér, hvað svo sem það er, og samhliða því og að læra um þessa vofveiflegu atburði fékk ég óbilandi trú á mannréttindabaráttum og baráttunni gegn fordómum (hver svo sem birtingarmynd þeirra er og gagnvart hverjum).

En ástæðan fyrir því að ég valdi að skrifa um þetta tiltekna efni er að ég er nýbúin að vera að kynna mér sögu Parísar í seinni heimsstyrjöldinni og hvernig lífið hér var í hernáminu. Þetta er viðkvæmt málefni hér í Frakklandi, þar sem það voru franskir ríkisstarfsmenn Vichy stjórnarninnar sem aðstoðuðu við handtökur franskra gyðinga (og annarra sem höfðu flúið ofsóknir annars staðar í álfunni) hér í París og sem og annars staðar. Margir Frakkar litu því miður framhjá þessum atburðum og liggur þar skömmin. Vissulega voru einnig margir Frakkar tilbúnir að hætta lífi sínu fyrir þá sem voru ofsóttir og því skulum við halda á lofti líka. Hér um alla borg er hægt að sjá platta, sem eru oftast festir á byggingar, þar sem íbúum borgarinnar sem létu lífið í ofsóknum nasista er minnst. Einnig eru plattar sem minnast þeirra sem létust í baráttunni gegn nasistum og hernáminu (sem og annarra sem dóu hetjudauða í annarri baráttu fyrir Frakkland, á öðrum tímum).

Það vekur mann kannski til meiri umhugsunar að standa fyrir framan byggingu og hugsa “já þetta fólk bjó hér, gekk þennan stiga og opnaði þessar dyr”, frekar en að lesa bara upplýsingar úr texta. Ég hafði velt þessu öllu mikið fyrir mér þegar ég gekk út á þvottahús áðan og rak augun í það að á barnaskólanum í húsinu við hliðina á íbúðinni minni er platti. Seinna um kvöldið sá ég að það er samskonar platti á menntaskólabyggingunni í næstu götu.

“Í minningu nemenda þessa skóla sem voru sendir burt á árunum 1942-1944 af því að þeir fæddust gyðingar. Saklaus fórnarlömb villimennsku nasismans og Vichy stjórnarinnar, sem týndu lífi sínu í útrýmingarbúðum. Meira en 700 af þessum börnum voru úr 18. hverfi”

Sömu götu og ég geng á morgnana í metróið, sömu boltaleiki og ég sé krakkana spila sem hlaupa fram hjá glugganum mínum, léku þessi börn sér.

Eitt það sorglegasta við þetta er að enn þann dag í dag er mannfólkið í sama ruglinu. Börn deyja, eru hrakin á flótta, er mismunað eftir uppruna og þau lokuð inni í ómannúðlegum aðstæðum, með veggjum og gaddavír, þau drukkna á leið yfir sama haf og margir Evrópubúar synda í á sumrin, sér til skemmtunar. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég reyni alltaf að tala á móti fordómum og illsku, hver svo sem á í hlut, því það eru alltaf saklausir einstaklingar sem slík orðræða og hegðun bitnar á.