.

View Original

plánetan París

Mig dreymdi heldur undarlegan draum í nótt. Ég var á leiðinni út í geim - einhverra hluta vegna hafði ég boðið mig fram í það og öllum þótti það ógurlega sniðugt (nema mér). Það styttist í brottför og mig langaði ekkert að fara á sporbaug í 6 mánuði. Vissi heldur ekkert hverju ég ætti að pakka niður fyrir þessa ferð.

Ég suðaði og suðaði í mömmu og Svavari um það að sleppa þessu bara en þau voru svo ánægð með mig að ætla að fara út í geim, alein, og að ég ætti nú endilega að drífa mig. Minn helsti ótti var að þó að geimskotið myndi heppnast vel þá væri ekki áhættulaust að snúa aftur til jarðar. Mig langaði ekki að enda sem geimrusl sem yrði á sporbaug að eilífu.

Það varð þó ekki úr þessu ævintýri þar sem í ljós kom að ég átti að borga fyrir þetta geimskot og hvorki ég, né Svavar og mamma, höfðum efni á einhverjum geimævintýrum og því var hætt við herlegheitin (mér til mikillar gleði).

Eftir á velti ég því fyrir mér hvað í ósköpunum þetta gæti hafa þýtt. Ég er búin að vera heima í 4 daga með flensu, nánast ekkert gert nema liggja sveitt uppi í rúmi og horfa á litla rýmið mitt og finna fyrir smæð þess. Ætli ég hafi ekki verið endanlega að bilast á einsemdinni og veikindunum að þessi innilokun umbreyttist í geimfar sem átti að skjóta mér á sporbaug.

Svona getur hugur manns nú verið skemmtilegur…