10 dagar hafa liðið
Ég ætlaði alltaf að vera duglegri að blogga. Mér finnst skemmtilegt að fólk fái að fylgjast með því sem ég er að gera hérna í París. Það má samt ekki verða að kvöð.
Mér finnst alltof gjarnan að samfélagsmiðlar verði að einhverri pressu. Að allir viti alltaf hvar maður er og hvað maður sé að gera. Eins og maður sé skyldugur að senda inn uppfærslur, því aðrir vilji sjá hvernig gangi. Svo setja ekkert allir inn færslur þegar það gengur illa og þá finnst manni vanlíðan sem getur komið upp, vera óeðlileg og til þess fallin að hún sé falin.
Ég er í eilífri baráttu við kvíðaskrímslið og ég held það sé bara allt í lagi að setja það hér fram. Barátta um að standa sig nógu vel - að finnast maður sjálfur standa sig nógu vel. Því flest fólk er yfirleitt ekki að spá svo mikið í einhverjum öðrum. Við erum öll litlar stjörnur sem pláneturnar okkar snúast um. Plánetur eins og gleði, sorg, kvíði, depurð, hamingja etc. Aðrar stjörnur hafa sínar plánetur að hafa áhyggjur af, við höfum okkar.
Ég er ekki að segja að við séum sjálfselsk, því við erum það flest ekki. Við höldum bara að allir séu að einblína á okkar persónulega styrkleika og veikleika, þegar flestir eru að horfa á sína eigin.
Margt af því sem ég hef haft áhyggjur af síðan ég kom út, hefur tekið frá mér mikla orku í vangaveltum. Það er eitt að hafa áhyggjur af einhverju, eða velta því fyrir sér, en þegar það er farið að snúast í hringi um sjálft sig og vinda upp á sig þá er orkan sem fer í það orðin ansi mikil. Ofan á það, þá á ég stundum erfitt með að sleppa takinu af hlutum og leyfa þeim bara að gerast. Sjá hvað gerist. Ef ég plana þá bara nógu hart og mikið, þá valda þeir mér ekki vonbrigðum (sérstaklega ef ég bý til voða neikvætt plan).
Þessi hugsunarháttur er gömul sjálfsbjargarviðleitni sem kannski virkaði þegar ég var yngri en er ekki endilega hjálpsöm í dag. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Djók, ég veit að það er ekki satt. Með nógu freistandi verðlaun - og þolinmæði - geturðu kennt gömlum hundi nánast hvað sem er. Þannig að það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að maður reyni að temja sjálfum sér afslappaðra hugarfar. Nema maður sjálfur…
Fyrir 10 dögum kom Svavar í heimsókn til mín. Það var yndislegt að fá hann í heimsókn og rölta með honum hérna um stræti og torg. Uppáhalds iðjan okkar er sennilega að fara út að borða saman og upplifa nýja staði. Við gerðum slatta af því á meðan hann var hér - svona á milli þess sem við höfðum það kósí og ræddum um lífið og tilveruna.
Uppáhalds staðurinn okkar í þessari ferð var pínulítill, nokkurs konar franskur “tapas” staður, þ.e. ýmsir mögulegir franskir smáréttir í boði og endalaust af víni. Set staðsetninguna hérna á kortið. Hann heitir L’Avant Comptoir.
Það skemmtilega við þennan stað er að það eru engin sæti, heldur standa allir, það er hávaði - þjónninn kallar pantanir inn í eldhús og eldhúsið kallar til baka. Það er tónlist, ekki of há, en skemmtileg - og fólk fer ósjálfrátt að tala við næsta mann. Smá eins og bar stemming en með mat. Stundum gleymdi þjónninn að afgreiða pöntun en þá var bara að ná athygli hans og minna hann á - og hann skenkti aðeins meir í glasið í leiðinni.
Þessi staður sem við fórum á býður upp á allskyns rétti. Einnig er til L’Avant Comptoir de la Mer (sjávarréttaþema) og L’Avant Comptoir de la Marché (skinkuþema ef ég skildi það rétt sem þjónninn sagði).
Okkur fannst mjög gaman á þessum stað og vorum afar kát að hafa rambað inn á hann.
Hér fyrir neðan er svo time lapse af myndunum sem Svavar tók í ferðinni.
Nú, 10 dögum síðar, ligg ég uppi í rúmi og er loksins komin yfir þá tilfinningu að ég sé “í útlöndum, svo ég verð að vera að gera eitthvað”. Ég þarf ekkert að fara út frekar en ég vil það og ég er mjög fegin og þakklát að hafa það val. Þannig að ég ætla að finna mér eitthvað að horfa á - milli þess sem ég horfi út í gegnum gardínurnar á götuna mína - og borða súkkulaðiíspinna.
Ps. Mæli með kvikmyndinni Three Billboards Outside of Ebbing, Missouri
og bókinni 21 Lessons for the 21st Century eftir Yuval Noah Harari.