Steinvalan í skónum
Ég fékk gullkornadagatal í kveðjugjöf frá mömmu áður en ég fór að heiman og í dag, 13. janúar, er kornið þetta.
Óklifin fjöllin framundan buga þig ekki, heldur steinvalan í skónum.
— Muhammad Ali
Muhammad Ali var nú reyndar ekki fyrstur manna til að koma með þetta gullkorn og í sjálfu sér virðist enginn vita með vissu hvaðan það kom. Ætli þetta sé ekki ævafornt orðatiltæki sem hefur verið tileinkað honum karlinum. Í fyrstu heimildinni sem hefur fundist um þetta frá 1916 (samkvæmt QI) var þetta nafnlaust. Eflaust hafa margir vitrir menn og konur pælt í þessu, enda með einsdæmum pirrandi að vera með steinvölu fasta í skónum. Upphaflega var reyndar talað um sandkorn en mér finnst nú alveg til í dæminu að vera með sandkorn í skónum án þess að það verði manni að falli.
Já þetta var nú vangavelta dagsins.
Í gær fékk ég mér göngutúr um hverfið, enda fyrsti frídagurinn minn. Ég byrjaði á að rölta og kíkja á búðir og kaffihús í nágrenninu. Svo fór ég í bókabúð og keypti mér litla dagatals-dagbók fyrir vinnuna, sem og vatnsliti. Hvernig get ég búið í París ef ég ætla ekki að verða rosalega listræn í leiðinni? Nei ég bara spyr.
Svæðið í kringum götuna mína sjálfa (sjá kort) er mjög skemmtilegt, þar eru búðirnar flestar afrískar eða karabískar, sumir sölumenn með bása úti á gangstéttum þar sem þeir selja allskonar framandi ávexti og skemmtilegt og líflegt andrúmsloft fylgir. Fari ég yfir eitt stórt boulevard í vestur, Boulevard Barbès, er ég komin að rótum Montmartre þar sem Sacré-Cœur trónir yfir alla Parísarborg. Bóhemismi og rómantík og dýrari búðir (og túristar) í bland.
Skoðunarferðin var ekki löng í gær og í dag ætla ég að skjótast aðeins og líta upp á hæðina hjá Montmartre áður en ég mæti á spunanámskeið sem ég samviskusamlega skráði mig á til að hafa eitthvað að gera á sunnudagskvöldum.
Það er líka gott að hlæja með ókunnugum. Í síðasta tíma var ég hálf súr og þreytt af því að ég var illa sofin og nýlent í París en nú í kvöld verð ég vonandi hress (þrátt fyrir vott af þynnku sem fer vonandi með ferska loftinu..).
Nokkrar myndir fylgja úr göngutúrnum í gær.